Slagarasveitin heldur tónleika í Iðnó á morgun, fimmtudaginn 15. sept. n.k. kl: 20:30.
Um sitjandi viðburð er að ræða.
Slagarasveitin hefur verið að gefa út eigið efni að undanförnu og alls eru komin út 8 lög með sveitinni sem finna má á Spotify og Youtube. Mælum með að þú kíkir á lögin og hitir upp fyrir tónleikana. Sveitin vinnur að sinni fyrstu hljómplötu sem stefnt er á að komi út fyrir næstu jól.
Það má segja að það hafi verið algjör tilviljun á meðlimir Slagarasveitarinnar komu saman á nýja leik og hófu að taka upp eigin lög og texta. Meðlimir hljómsveitarinnar voru löngu hættir allri spilamennsku en þess í stað fóru félagarnir í veiðiferðir á hverju ári og tóku hljóðfærin með. Það varð til þess að lög og textar urðu til og þegar staðan var orðin þannig að spilað var langt fram eftir nóttu með tilheyrandi gleðskap og ekki farið út í rándýra veiðiá fyrr en seint og um síðir þá ákváðu hljómsveitarmeðlimir að leggja meiri áherslu á Slagarasveitina og minni á veiðina.
Lögin eru öll frumsamin eftir Ragnar Karl Ingason og textar eru eftir Ragnar Karl og Skúla Þórðarson. Halldór Ágúst Björnsson sér um upptökur.
Lög sveitarinnar eru fjölbreytt en í lagasafninu eru rokklög, kantrý, ástarlög, tregalög, eitt diskólag og tangólag. Nánari upplýsingar er að finna á Facebooksíðu sveitarinnar.
Um miðjan ágúst hélt sveitin tónleika á Veitingarstaðnum Sjávarborg á Hvammstanga fyrir fullu húsi og fékk f´rabærar viðtökur. Alls verðum við níu á sviðinu í Iðnó.
Sveitina skipa:
Geir Karlsson
Ragnar Karl Ingason
Skúli Þórðarson
Stefán Ólafsson
Valdimar H. Gunnlaugsson
Fyrir tónleikana fær hljómsveitin aukalega til liðs við sig Aldísi Olgu Jóhannesdóttur, Einar Friðgeir Björnsson, Guðmund Hólmar Jónsson og Kristínu Guðmundsdóttur.