Slökkvilið Fjallabyggðar heimsótti í gær nemendur í 3. bekk Grunnaskóla Fjallabyggðar þar sem farið var yfir mikilvægi brunavarna á heimilum, en heimsóknin er hluti af eldvarnarátaki slökkviliða á landsvísu nú á aðventunni.
Nemendur ræddu við slökkviliðsstjóra meðal annars um reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnarteppi og einnig hvað ber að varast á heimilum með tilliti til brunahættu.
Þá fengu nemendurnir að kynnast slökkviálfunum Loga og Glóð og einnig Brennu-Vargi sem veldur usla.
Börnin fá einnig tækifæri til þess að taka þátt í eldvarnagetraun sem þau svara heima með aðstoð foreldra sinna.
Mynd/Slökkvilið Fjallabyggðar