Evrópuráðið stóð fyrir fundi sérfræðinga um öryggi og heilbrigt umhverfi í íþróttum í Strassborg í gær. Þátttaka ráðuneytisins er liður í formennsku Íslands í Evrópuráðinu og voru helstu áherslur stjórnvalda í formennskuáætluninni kynntar á fundinum.

Fundurinn er hluti af verkefninu Safe Sport sem íþróttadeild Evrópuráðsins vinnur að í samstarfi við lönd innan Evrópuráðsins og lönd utan Evrópuráðsins sem óska eftir þátttöku. Markmiðið er að deila reynslu og þekkingu á því hvernig löndin vinna að málum sem lúta að áreitni, ofbeldi, einelti og hverskonar annarri svipaðri hegðun í íþróttum.

Fulltrúar mennta- og barnamálaráðuneytisins og Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs tóku þátt í fjarfundi. Samskiptaráðgjafi kynnti starfsemi sína, svaraði spurningum og tók þátt í umræðum. Talsverð þróun hefur átt sér stað undanfarin ár þegar kemur að framkomu- og samskiptamálum í íþróttastarfi og er fundurinn samráðsvettvangur fyrir skoðanaskipti, upplýsingagjöf og að deila reynslu á þessu sviði.

Seinni hluti fundarins fjallaði um hvernig hægt sé að tryggja þátttöku barna í stefnumótun á sviði íþrótta. Rætt var um ávinninginn af þátttökunni og áskoranir við skipulagningu hennar.

Forsíðumynd: Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Sigurbjörg Sigurpálsdóttir Samskiptaráðgjafi