Þar sem ég er orðin elsta manneskjan í mínum ættlegg hef ég upplifað ansi mörg jól, þau eru orðin 63. Það er magnað að horfa aftur í tímann, margs er að minnast og sjá hvernig jólahefðir hafa tekið breytingum.

Jólin hafa verið allskonar. Í bernsku var tilhlökkun og spenningur allan desember. Jólasveinarnir komu í byrjun desember á þeim árum og færðu mér ásamt fíneríi í skóinn, bæði systkinin mín. Er ein æskuminningin mín því tengd, sú að þegar systir mín fæddist 8. desember 1965 heima, þá var ég send í næturpössun til Hallfríðar Pétursdóttur frænku minnar og fjölskyldu. Hafði ég mestar áhyggjur af því að jólasveinninn rataði ekki til mín, en auðvitað klikkaði hann ekki á svoleiðis smámunum. Þessi merkilegu jól þegar jólaspenningurinn og gleðin yfir lítilli systur áttu hug minn allan fór ég með forláta kerti í glerkúpli sem jólasveinninn gaf mér og færði ljósmóðurinni til að þakka henni fyrir þessa dýrmætu gjöf sem Litla mín er.

Önnur uppáhalds minningin mín frá því ég var barn var þegar við systkinin biðum óþolinmóð eftir því að klukkan yrði 18:00 á aðfangadag, datt þá móður okkar í hug það heillaráð að láta okkur fylgjast með jólunum koma. Stóðum við með nefin klesst upp við stofugluggann og fylgdumst með jólunum koma niður fjallið á Siglufirði og inn í húsið á slaginu 18:00. Ég get svarið að ég sá jólin koma. Þetta er yndisleg minning um bernskuheimilið, systkini mín og foreldra.

Þegar unglingsárin brustu á varð jólaandinn aðeins öðruvísi. Þá var þessi barnsgleði ekki til staðar en í staðinn kom tilhlökkun að fá góðar bækur, jólamatinn og njóta samverunnar með fjölskyldunni. Jólamaturinn var ávallt rjúpur, aspassúpa, heimatilbúinn mömmuís og allskonar meðlæti sem ég elskaði. Sé föður minn fyrir mér með bláu jólasveinasvuntuna sem mamma saumaði, að hantéra rjúpurnar og mamma í sósugerð. Mamma var listakokkur og eitthvað svo heillandi við matargerðina hennar sem ég á engin orð yfir og var hún einstakt jólabarn. Svo voru það allar næturnar sem við pabbi mættumst í eldhúsinu að fá okkur nætursnarl, það fylgdi jólunum að snúa sólahringnum við og lesa bækur fram eftir morgni og skjótast í eldhúsið eftir kræsingum.

Eftir 16 ára aldurinn var jólaballið á annan í jólum alltaf mikið tilhlökkunarefni, þá var sko djammað og aftur var arkað á áramótaball nokkrum dögum seinna.

Svo kom að þeim stóru tímamótum, fyrstu jólunum sem ég var fjarri bernskuheimilinu, á mínu eigin heimili og bar mitt fyrsta barn undir belti. Það sem mér er minnisstæðast frá þeim jólum er að pabbi og mamma höfðu sent mér helsingja sem átti að vera í matinn á aðfangadagskvöld. Ekki fór betur en svo í eldamennskunni, að þrátt fyrir símtöl og leiðbeiningar frá mömmu varð helsinginn eins og skósóli, ólseigur og óætur. En þáverandi eiginmaður minn sá hvað ég var aum yfir þessu og leit hann á mig yfir borðið með ólseigan bitann uppi í sér og sagði, “mikið svakalega er sósan góð”.

Svo komu jólin þegar börnin mín voru að vaxa úr grasi, allt á haus að gera allt fyrir jólin, baka, þrífa, kaupa gjafir, pakka inn og græja allt áður en eiginmaðurinn kom í land. Þá voru jólin hátíð barnanna og mikil ánægja sem ég upplifði í gegnum tæra jólagleði barnanna. Svo komu árin sem ég var í fyrirtækjarekstri og kom ekki heim fyrr en kl. 15:00 á aðfangadag, gjörsamlega örmagna af þreytu en jólin biðu ekki eftir mér. Þó kom það einu sinni fyrir að ég ætlaði aðeins að láta líða úr mér mestu þreytuna og ég svaf yfir mig. Þá tóku þeir feðgar sig saman um að láta mig sofa og græja það sem eftir var. Ávallt var sú verkaskipting á heimilinu að þeir feðgar skreyttu jólatréð og ég eldaði.

Eftir að synir mínir uxu úr grasi og fjölskylduhagir mínir breyttust fór jólaandinn frá mér í nokkur ár, en alltaf gat ég fundið fyrir honum á æskuheimilinu hjá mömmu og pabba, síðar mömmu eftir að pabbi lést örfáum dögum fyrir jólin árið 2010. Skreytingar voru í lámarki og var ég fegin þegar þessi árstími var liðinn og sól tók að hækka á himni.

Svo kom að því að ég flutti til núverandi eiginmanns míns um mitt ár. Mér er minnisstæðast að þegar ég kom fyrst til hans var þar skreytt jólatré, sem hafði fengið að vera uppivið frá síðustu jólum, enda farið að styttast í næstu jól. Þá gróf ég eftir jólagleðinni á nýjan leik sem náði hámarki þegar við hjónin fengum okkur bleikt jólatré og nýjar jólahefðir eru óðum að verða okkar.

Nú eru enn og aftur stór tímamót í mínu jólahaldi þar sem við hjónin erum víðsfjarri öllum okkar ættingjum í fjarlægu landi hins eilífa vors, Gran Canaria. Þar sem ég sit núna og hlusta á jólalög og jólakveðjur á FM Trölla er tilhlökkun fyrir þessum öðruvísi jólum. Jóarósin og einiberjaplantan eru skrautið, hangikjöt og laufabrauð bíða jóladags, hráefni í jólaísinn klárt og Nóa konfekt komið í hús. Á aðfangadagsmorgun mála ég jólakort úti í sólinni og hugsa heim, á aðfangadagskvöld förum við hjónin út að borða með vini okkar kl. 18:00 og í jólaheimsókn til yndislegra vinahjóna á milli jóla og nýárs, ef Covid leyfir. Svo verður facetæmað á börn og barnabörn á aðfangadagskvöld og fáum við þá að upplifa sanna barnslega jólagleði.

Ég lít yfir jólasöguna mína með þakklæti, jólin hafa verið allavega og aldrei of seint að móta nýjar jólahefðir og taka fagnandi á móti breytingum.

Gleðileg jól til ykkar allra og njótið jólanna eins og þau koma fyrir.

Aðfangadagur í Syðri Glaumbæ, í helli okkar hjóna á Gran Canaria með jólakortið nýmálað.

Forsíðumynd af bernskuheimili mínu á Siglufirði.