Smákóngarnir og prinsessurnar á rásinni.

Fyrir rúmum áratug stofnuðu nokkrir ungir og upprennandi tónlistarmenn hljómsveit sem átti síðar eftir að vera talin með athyglisverðari böndum meðan hún starfaði. Þessir ungu menn voru stórhuga og  uppfullir af góðum tónlistarlegum hugmyndum. Þeir réðust því í það stórvirki að taka upp frumsamið efni í Tankinum á Flateyri sem var í framhaldinu gefið út á geisladisk og fáeinum árum síðar fylgdi annar slíkur. Báðir diskarnir fengu firna góða dóma, en þegar leitað var eftir kynningu og spilun í útvarpi allra landsmanna, gekk ekki þrautalaust að ná athygli dagskrárgerðarfólksins sem í framlínunni starfar og má alveg segja að komið hafi verið að luktum dyrum á þeim bæ. Það var svo fyrir hálfgerða slysni að útvarpsmaður sem sá um „lítinn“ kvöldþátt rambaði inn á eina tónleika sveitarinnar, áttaði sig á hæfileikum piltanna og spurði hvort þeir hefðu ekki tekið upp eitthvað efni. Þannig má segja að þeir hafi komist bakdyramegin inn í helgidóminn fyrir einskæra heppni, en nýlega heyrði ég einn af útvarpsmönnunum sem lagði alls ekki eyru við þeim í fyrstu, segja að þar færi eitt af hans uppáhalds böndum. Einn sveitarmeðlimur orðaði það þannig að þeir hefðu á sínum tíma verið búnir að gefast upp á að smjaðra fyrir aðalgenginu þegar þeir unnu í lottóinu.


Ennþá í plastinu.

Fyrir allmörgum árum síðan var ég staddur inni í einni af þessum skemmtilegu nördabúðum í miðbæ Reykjavíkur sem meðal annars seldu notaða geisladiska. Þá kemur þar inn útvarpsmaður sem var á þeim sama tíma nokkuð áberandi á Rás 2 og hefur sá meðferðis nokkuð myndarlegan pappakassa sem innihélt greinilega enga léttavöru. Kassanum er lyft upp á búðarborðið fyrir framan eigandann og erindið fór að sjálfsögðu ekki fram hjá mér, því mín eðlislæga forvitni sá til þess.

„Viltu kaupa alveg ónotaða geisladiska?“

Ég þokaði mér örlítið nær og náði að berja innihaldið augum. Þarna voru einhverjir tugir nýlega útkominna geisladiska og ég veitti því athygli að flestir þeirra voru enn í plastinu sem sagði mér heilmikið um störf eiganda pappakassans.

Þannig gengu nefnilega hlutirnir oft fyrir sig að tónlistarfólk sendir því útvarpsfólki sem það telur að efni sitt gæti átt erindi til og vonast auðvitað í leiðinni til að ná athygli þess og það auðvitað í góðri trú, gjarnan eintak af sköpunarverki sínu. Hvað síðan verður um þetta kynningaefni veit svo sem enginn alveg fyrir víst, en þarna á afgreiðsluborðinu gat þó að líta sterka vísbendingu um þá sniðgöngu, höfnun, mismunun og jafnvel útilokun sem virðist viðgangast í stofnuninni ef flytjandinn er ekki náðarsamlegast á vinalista viðtakanda.


Að eiga vin eða eiga ekki vin, – það er bæði spurningin og svarið.

Það hefur viðgengist í gegn um tíðina að ákveðnum listamönnum hefur verið hyglað á meðan öðrum er ýtt til hliðar og sumir ofspilaðir meðan öðrum er úthýst. Bæði vinavæðing og útilokunarmenning í einum pakka sem enginn á að vera stoltur af. Það er ekki svo að þeir sem ná ekki í gegn séu endilega að gera neitt verri hluti, heldur virðist það því miður oft skipta mun meira máli hver flytjandinn er, en hvað hann hefur fram að færa. 

Það er ekkert nýtt að listafólk hafi misjafnlega gott aðgengi að dagskrárgerðafólki innan stofnunarinnar. Þar virðast eiginlega engin jafnréttislög gilda, heldur getur sá jafnvel verið sigurstranglegastur sem hefur beittustu olnbogana, þekkir lykilmennina og er hæfasti lobbýistinn.

Það er heldur ekkert nýtt að það getur breytt öllu að „eiga vin“ á staðnum, því ég hef nefnilega upplifað það á eigin skinni hér á árum áður, að það að hafa aðgang að innanbúðarmanni getur skipt öllu. Lag sem ég ásamt þáverandi félögum mínum stóð að því að flytja og gefa út, var mikið spilað á rásinni, endaði inn á einhverjum listum og draumurinn sem við ólum okkur í brjósti, breyttist í veruleika og síðan velgengni. Einhverjum árum síðar var svo meira gefið út, en þá var vinurinn því miður hættur störfum. Árangurinn varð því lítill sem enginn þrátt fyrir að efnið væri margfalt vandaðra og frambærilegra og flytjendur orðnir mun sjóaðri í bransanum.

Þá er vart annað hægt en að taka eftir því að það er að minnsta kosti ekki verra þegar kemur að því að fá spilun á sitt efni að vera starfsmaður RÚV. Ekki verra segi ég, en að sjálfsögðu reynir starfsfólk auðvitað að gæta þess eins vel og það hefur vit og þroska til, að vina, hagsmuna og skyldleikatengsl hafi ekki áhrif á störf þess eins og segir í siðareglum.

Nema hvað? – Eða hvað?

Að lokum segi ég eins og einn ágætur samferðamaður minn í bransanum.

Nú er ég hættur þessu stússi og ströggli við þetta lið og get því rifið kjaft eins og mér sýnist. Skítt með alla sniðgöngu, höfnun, mismunun eða útilokanir.

Leó R. Ólason 

Greinarhöfundur hefur verið viðloðandi tónlist og tónlistarflutning í hálfa öld.

Aðrar greinar og pistla eftir Leó má finna hér