Sniglar, bifhjólasamtök lýðveldisins, og Orka náttúrunnar (ON) munu í tilefni 35 ára afmælis Snigla efna til hringferðar um Ísland á rafmagnsbifhjólum. Ferðin verður farin dagana 8. – 15. ágúst á rafmagnsbifhjólum frá Electric Motorcycles og Energica. ON styður veglega við verkefnið í þeim tilgangi að stuðla að orkuskiptum í samgöngum en rafmagnsbifhjól henta vel þeim markmiðum.

 

 

Þegar hersingin ekur í gegnum Reykjavík, mánudaginn 12. ágúst kl. 17:00- 18:30, verður efnt til málþings í höfuðstöðvum ON við Bæjarháls um orkuskiptin sem hluta af samgöngumáta framtíðarinnar.

Þar verða rafmagnsbifhjólin sem fara hringferðina til sýnis.

 

Energica rafmagnsbifhjól

 

Hringferð Snigla og ON hefst á Seyðisfirði 8. ágúst. Þá koma til landsins með Norrænu fulltrúar Electric Motorcycles og Energica með sex rafmagnsbifhjól. Fylgdarbíll í ferðinni er Tesla Model X. Energica framleiðir rafmagnsbifhjól sem eru á meðal öflugustu ökutækja heims, en notast þó ekki við koldíoxíðlosandi eldsneyti.

Fylgist með á Facebook
Áð verður á fjölmörgum stöðum um landið og verða rafmagnsbifhjólin til sýnis gestum og gangandi sem geta spurt hringfarana út í þessa áhugaverðu tækni og hvernig ferðalagið gengur fyrir sig. Hægt verður að fylgjast með framgangi ferðarinnar á „Rafmögnuð hringferð“ á Facebook og skoða myndir með myllumerkinu #rafmognudhringferd.

Í höfuðborginni verður blásið til málþings í höfuðstöðvum Orku náttúrunnar að Bæjarhálsi 1 í Reykjavík og rafmagnsbifhjólin sýnd. Það verður mánudaginn 12. ágúst kl. 17:00-18:30. Þar munu Steinmar formaður Snigla, Marchel, Kristján Gíslason og fulltrúi frá ON fjalla um ýmsar hliðar orkuskipta í samgöngum.

Föruneyti hringsins
Fyrir hönd Snigla fer formaður samtakanna, Steinmar Gunnarsson, fyrir hringreiðinni en með honum í för verða Marchel og Ingrid Bulthuis fyrir hönd Electric Motorcycles og Energica en jafnframt mun hinn þaulreyndi Kristján Gíslason hringfari slást með í för. Hann lauk fyrir ekki svo löngu hringferð um jörðina á mótorhjóli.

Tímaáætlun hringferðarinnar

Stoppað verður á eftirfarandi stöðum:

8. ágúst á Seyðisfirði frá 8:30 til 10:00 þegar Norræna kemur til landsins. Alcoa- Fjarðaál á Reyðarfirði þar sem hjólin verða hlaðin kl. 11:00 í boði Alcoa og mótorhjólaklúbbsins (MC) Drekar. Egilsstaðir kl. 14:00 þar sem Goðar MC taka á móti föruneyti hringsins við ON hlöðuna á N1 þjónustustöðinni.

9. ágúst byrjar á Húsavík og hjólin sýnd klukkan 13:00 en þar tekur Húsavík Náttfari MC á móti hópnum við hlöðu ON.

10. ágúst verður bryddað upp á kvartmílu á Akureyri um kl. 11:00 ef veður leyfir en sá viðburður ætti að vekja athygli Eyfirðinga og annarra sem eru á svæðinu. Rafmagnsbifhjólin verða svo sýnd við mótorhjólasafnið kl. 14:00. Á Akureyri er það mótorhjólaklúbburinn Tían sem tekur á móti hópnum.

11. ágúst verður hópurinn í Borgarnesi en fylgjast verður með tímasetningu þar sem óljóst er hvenær hópurinn kemur þangað þar sem þetta er lengsti leggurinn. Áætla má að það verði síðdegis og þá verða hjólin sýnd við Brákarey. Um kvöldið er áætlað að spyrna á kvartmílubrautinni í Kapelluhrauni við Hafnarfjörð en tímasetning liggur ekki fyrir. Hún verður tilkynnt á Facebook síðu hringferðarinnar „Rafmögnuð hringferð“.

12. ágúst verður svo málþingið í höfuðstöðvum ON kl. 17:00 en síðar um kvöldið, á bilinu 20:00-21:00, verða rafmagnsbifhjólin á Selfossi þar sem mótorhjólaklúbburinn Postular munu taka á móti þeim.

13. ágúst að kvöldi verða ferðalangarnir á Höfn í Hornafirði en tímasetning verður sveigjanleg.

14. ágúst verða hjólin hlaðin í hlöðu ON á Djúpavogi en ekið verður þangað sem leið liggur frá Höfn snemma morguns.

15. ágúst fara rafmagnsbifhjólin til Seyðisfjarðar og aftur til Danmerkur með Norrænu.

Energica Motor Company S.p.A er ítalskur rafmagnsbifhjólaframleiðandi í Modena á Ítalíu, þar sem hjarta ítalskrar bíla- og mótorhjólaframleiðslu er. Energica eru þróuð og hönnuð af færustu verkfræðingum og tæknifólki úr Formúlu 1. Energica Evo rafmagnsbifhjólið er sem dæmi búið 145 hestafla rafmótor sem skilar 200 NM og hraðar hjólinu í 100 km/klst á 3 sekúndum og í allt að 240 km/klst en fá ökutæki eru líkleg til að ráða við götuskráð Energica Evo í kvartmílu.

Hjólin eru eftirfarandi:
1) Johammer J1.150
2) Energica Eva EsseEsse9
3) Energica Eva
4) Energica Eva
5) Energica Eva
6) Energica Ego
7) Krossari fyrir yngri kynslóðina
8) Keppnishjól, óskráð sem má ekki aka, ekki einu sinni á braut.

Áhugaverðir punktar vegna hringferðarinnar:

  • Meginmarkmið hringferðarinnar er að auka vitund almennings um möguleikann á orkuskiptum í samgöngum, um land allt.
  • Þetta er fyrsta skipulagða hringferðin með rafmagnsbifhjól til sýningar.
  • Stjórnvöld hafa ekki veitt samskonar ívilnanir fyrir rafmagnsbifhjól og veittar eru fyrir bifreiðar en það þarf að laga það enda þessi ökutæki afar hentug m.t.t. orkuskipta í samgöngum.
  • Það er mun umhverfisvænna að aka um einn á rafmagnsbifhjóli en á bíl.
  • Tesla Model X rafbíllinn dregur vagn með fjórum rafmagnsbifhjólum og búnaði en það er jafnframt í fyrsta skiptið sem rafbíll með tengivagn ekur hringinn í skipulögðum rafmagnshringakstri.
  • Með í för eru drónar sem Björgvin Hrafn stýrir sem mynda hluta ferðarinnar, að sjálfsögðu líka rafknúnir.
  • ON hefur komið upp hlöðum með hraðhleðslum hringinn í kringum landið og í dag er hægt að fara hringinn í kringum landið á rafbíl, eða rafmagnsbifhjóli.
  • ON stendur nú fyrir átaki þar sem hleðslubúnaður er endurnýjaður.