Pistlahöfundi finnst það mjög svo skemmtilegt, að eftir birtingu greina um ýmsar minningar úr Sigló barnæsku á síðustu öld, að fá ýmsar viðbóta upplýsingar og ljósmyndir frá lesendum hér á trölli.is. Í nýlega birtri grein þar sem aðal þemað var skíðastökk í Gryfjunni svokölluðu, var einnig tekið skemmtilegt “skíðatísku hliðarspor”, varðandi hinar geysivinsælu Nönnu Franklíns-dóttur húfur.
Í þeirri frásögn lýsti ég eftir litmyndum af þessum sér Siglfirsku skíðahúfum. Sjá meira hér:
Nú gætu sumir spurt, hvað?
Á maður nú að lesa heila grein um eitthvað svo nauða ómerkilegt, eins og sögu um gamla skíðahúfu?
Já, því þetta er enginn venjuleg húfa og það er nokkuð ljóst að minningin um Nönnu Franklín og skíðahúfurnar okkar, er okkur Siglfirðingum í rauninni jafn kær eins og okkar óendanlega aðdáun á Hólshyrnu fjallinu okkar allra.

Íslandsmeistarhúfa frá 1974 / 75
Við nánari athugun, varðandi sögu húfunnar kom í ljós að hún, ásamt eigandanum er margfaldur gönguskíða Íslandsmeistari og var á sínum tíma sérpöntuð hjá Nönnu, ásamt sokkum í sama skær appelsínugula stíl.
Þetta voru tískulitir síns tíma og pössuðu vel við bláa gönguskíða gallann hjá okkar ástkæra gönguskíðakappa Magnúsi Eiríkssyni.

ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér í fullri stærð.




Við Siglfirðingar vorum heppnir á sínum tíma, að Fljótamaðurinn Maggi Eiríks féll fyrir Sigló og henni GunnÓlu okkar. Þau hjónin hafa sópað til okkar mörgum skíðagöngu verðlaunum gegnum árin.
Undirritaður er þeim einnig þakklátur fyrir að hafa haldið til haga þessum merkilegum skíðasögu minninga munum og fyrir að leyfa mér að birta þessar myndir.

Heima á Sigló er til einhverskonar grunnur að Skíðasöguminjasafni og það væri með eindæmum gaman að margt og mikið af ýmsum munum úr þeirri frægðarsögu fengi að birtast okkur, þó ekki væri nema í ljósmyndum á netinu. Líkt og saga KÁESS var gerð okkur öllum aðgengileg hér um daginn og á þeirri heimasíðu geta allir tekið þátt og sent inn myndefni og eigin sögur.
Að lokum: Vandfundin auka Gryfju stökkpalla ljósmynd!
Viðbótar upplýsingar sem bárust eftir birtingu frá Valmundi Valmundssyni:
“Seinna kom svo á sama Gryfju svæði, pallur og turn úr járni á túnið hjá Jóni Gísla. Þá enduðum við ferðina oft uppi á þaki Smurstöðvarinnar, ef nægur snjór var. Annars varð maður að vera snöggur að stoppa eftir lendingu.”
Eins og nefnt var í upprunalegu greininni um minningar um skíðastökk í Gryfjunni, voru ljósmyndir vandfundnar, en fyrir algjöra tilviljun fann undirritaður þessa ljósmynd í stóru hafi af myndum, á Facebook síðu Steingríms Kristinssonar.

Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Guðmundur Jón Albertsson.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá áður nefndum eigendum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.