Deildarmyrkvi á sólu verður sjáanlegur frá Íslandi laugardagsmorguninn 11. ágúst 2018.
Myrkvinn sést frá öllu landinu ef vel viðrar. Deildarmyrkvinn er mestur norðvestanlands þar sem tunglið hylur um 14% sólar (14,5% á Hornströndum).
Nauðsynlegt er að nota viðeigandi hlífðarbúnað til að sjá deildarmyrkvann, það er sólmyrkvagleraugu og/eða sjónauka með sólarsíu. Venjuleg sólgleraugu duga ekki.
- Á höfuðborgarsvæðinu snertir tunglið sólina kl. 08:10. Þar nær myrkvinn hámarki kl. 08:44 og hylur tunglið þá rétt rúmlega 10% af sólinni. Myrkvanum lýkur svo kl. 09:19.
- Á Ísafirði hefst myrkvinn kl. 08:10 og er í hámarki kl. 08:47 þegar tunglið hylur 14% sólar. Þar lýkur myrkvanum kl. 09:25.
- Á Akureyri hefst myrkinn kl. 08:11 og nær hámarki kl. 08:48 þegar tunglið hylur 12% sólar. Þar lýkur myrkvanum kl. 09:25.
- Á Egilsstöðum hefst myrkvinn kl. 08:13 og nær hámarki kl. 08:49 þegar tunglið hylur tæplega 11% sólar. Þar lýkur myrkvanum kl. 09:26.
- Í Vestmannaeyjum hefst myrkvinn kl. 08:11 og nær hámarki kl. 08:44. Þá hylur tunglið tæplega 9% af sólinni. Myrkvanum þar lýkur kl. 09:17.
Seinast sást deildarmyrkvi frá Íslandi 21. ágúst 2017. Þá huldi tunglið huldi um og yfir 2% sólar frá Íslandi séð en á sama tíma sást almyrkvi frá Bandaríkjunum. Deildarmyrkvinn nú er sá mesti síðan 20. mars 2015 en sá myrkvi var mun meiri en nú eins og margir muna .
Deildarmyrkvinn nú sést best rétt sunnan og norðan heimskautsbaugs: Frá norðaustur Kanada, Grænlandi, Íslandi, norður Evrópu og norðausturhluta Asíu. Hvergi sést almyrkvi að þessu sinni.
Tunglið er næst jörðu innan við sólarhring áður en myrkvinn á sér stað. Þegar myrkvinn stendur yfir verður sólin í stjörnumerkinu Ljóninu .
Næst verður sólmyrkvi sjáanlegur frá Íslandi 10. júní 2021. Sá verður einnig deildarmyrkvi en mun meiri en nú. Þá hylur tunglið 70% sólar frá Reykjavík séð.
Hinn 12. ágúst 2026 verður svo almyrkvi á sólu sjáanlegur frá Íslandi, sá fyrsti síðan 1954.
Frétt og mynd: Stjörnufræðivefurinn