- ca 500 gr nautahakk (einn bakki)
- 1 laukur
- 1 rauð paprika
- 1 krukka Dolmio pastasósa með extra hvítlauk (fæst m.a. í Bónus og Nettó)
- 1 dós sýrður rjómi (gott að nota hálfa dós af sýrðum rjóma og rjóma á móti)
- 1/2 – 1 grænmetisteningur
- ca 2-3 msk fljótandi hunang
- smá sinnep (má sleppa)
- chili explosion krydd frá Santa Maria
- salt, pipar og paprikukrydd
Steikið hakkið á pönnu og þegar það byrjar að brúnast er lauknum bætt á pönnuna. Steikið áfram þar til laukurinn verður mjúkur og ef ég á papriku þá sker ég hana smátt og bæti á pönnuna í lokin. Kryddið aðeins með Kød og grill kryddi eða Lawrey´s seasoned salt og piprið. Bætið Dolmio pastasósunni á pönnuna ásamt sýrða rjómanum og rjómanum (ef þið eigið hann), 1/2 grænmetisteningi, hunangi, smá sinnepi og vel af chilli explosion kryddinu (ekki vera hrædd við það).
Leyfið að sjóða um stund og smakkið til, bætið jafnvel meiri krafti út í eða meira af chilli explosion kryddinu. Mér þykir líka gott að krydda aðeins með paprikukryddi. Ef sósan er of sterk bæti ég meiri rjóma eða sýrðum rjóma út í.
Sjóðið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar það er soðið er vatninu hellt af, spaghettíið sett í skál og væn smjörklípa látin bráðna yfir það.
Berið bolognes sósuna fram með spaghetti, ferskum parmesan osti og hvítlauksbrauði. Gott er að hafa kartöflumús með.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit