Nú hefur enn ein lægðin boðað komu sína til okkar og má vænta þess að talsverð ofankoma verði á Norðurlandi eystra aðfaranótt sunnudagsins 8. janúar og fram á morguninn.

Af þeim sökum gæti færð spillst bæði innan umdæmis sem og til og frá því. Enn og aftur hvetur lögreglan á Norðurlandi eystra þá sem hyggja á ferðalög að fylgjast vel með veðrinu og má finna helstu upplýsingar á síðum Veðurstofunnar, http://vedur.is sem og Vegagerðarinnar, http://umferd.is um færð og veður.

Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun vegna vinds og ofankomu á Norðurlandi eystra frá kl. 04:00 aðfaranótt sunnudagsins og fram til kl. 01:00 aðfaranótt mánudagsins en þó ber að nefna að enn er nokkur óvissa í spám líkt og kemur fram í færslu Veðurstofunnar á Facebook síðu sinni. https://vedur.is/vidvaranir/svaedi/nordurlandeystra

Ferðaþjónustuaðilar, sem verða með ferðamenn í gistingu aðfaranótt sunnudagsins, eru hvattir til að fylgjast sérstaklega vel með og veita eins góðar upplýsingar og hægt er til sinna viðskiptavina sem hyggja á ferðir á sunnudeginum.