Spænska ríkisstjórnin leggur til strangari reykingalög – rafrettur settar undir sömu reglur og tóbak

Spænska ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp að nýjum reykingalögum sem mun auka fjölda reyklausra svæða. Í fyrsta sinn munu rafrettur sæta sömu reglum og hefðbundið tóbak.

Samkvæmt frumvarpinu verður bannað að reykja og nota rafrettur á útisvæðum veitingastaða, við sundlaugar, á háskólasvæðum, undir strætóskýlum og í innan við 15 metra fjarlægð frá skólum, sjúkrahúsum, íþrótta- og menningarstöðvum og leikvöllum.

Heilbrigðisráðherrann, Mónica García segir að breytingarnar séu „mikilvægt skref í baráttunni gegn tóbaksnotkun“ og leggur áherslu á rétt fólks til reyklauss umhverfis. Reykingar valda um 140 dauðsföllum á dag á Spáni, eða rúmlega 50.000 á ári.

Frumvarpið felur einnig í sér bann við einnota rafrettum, strangari reglur um auglýsingar og aukinn stuðning við þá sem vilja hætta að reykja.

Málið fer nú til umsagnar og verður að því loknu lagt fyrir þingið. Ef það verður samþykkt mun Spánn styrkja stöðu sína í fremstu röð Evrópu í tóbaksvarnarmálum.

Mynd/pixabay