Þann 7. mars fundaði Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar.  Í fundargerð má finna meðal annars:

4. 1803019 – Endurnýjun byggingarleyfis – Suðurgata 49 Siglufirði

Lögð fram umsókn dagsett 7. mars 2018 þar sem Hörður Þór Rögnvaldsson fyrir hönd Ikaup ehf. sækir um endurnýjun byggingarleyfis sem samþykkt var í maí 2013, vegna breytinga á húsi við Suðurgötu 49 á Siglufirði. Einnig lagðir fram aðaluppdrættir ásamt skráningartöflu og gátlista byggingarfulltrúa.

Nefndin samþykkir framlagðar teikningar og felur tæknideild að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir aðliggjandi lóðarhöfum.

Þetta lítur ósköp sakleysislega út, en í fundargerð nefndarinnar þann 30. apríl má sjá að hitnað hafði í kolunum hjá nágrönnum.

1. 1803019 – Endurnýjun byggingarleyfis-Suðurgata 49 Siglufirði

Erindi dagsett 7. mars 2018 þar sem Hörður Þór Rögnvaldsson f.h. Ikaup ehf. sótti endurnýjun byggingarleyfis vegna breytinga á húsi við Suðurgötu 49 á Siglufirði, var grenndarkynnt í samræmi við 1. og 2. málsgrein 44.gr skipulagslaga nr. 123/2010.
Athugasemdir og ábendingar bárust frá sex aðilum.

Samantekt athugasemda:

1. Hafsteinn Hafsteinsson, eigandi jarðhæðar Suðurgötu 51. Dagsett. 4. apríl 2018.

a) Hækkun á þaki og uppsetning á kvisti til austurs andmælt, talið hafa í för með sér skerðingu á útsýni til norðurs. Útsýnið ein helsta ástæðan fyrir kaupum íbúðarinnar og mikilvægt að halda í það.
b) Uppsetning á svölum til austurs andmælt þar sem talið er að þær muni einnig hafa í för með sér skerðingu á útsýni til norðurs frá íbúðinni.
c) Ekki er gerð athugasemd ef kvistur yrði settur á vesturhlið Suðurgötu 49.

Suðurgata 49 með bláum vinnupöllum, Suðurgata 51 er til vinstri og stendur talsvert hærra.


2. Marlis Sólveig Hinriksdóttir, eigandi efstu hæðar Suðurgötu 51. Dagsett. 4. apríl 2018.

a) Fyrirhugaðar breytingar taldar hafa neikvæð áhrif á götumynd.
b) Fyrirhugaður kvistur og svalir raska upprunalegu útliti hússins.
c) Hækkun þaks, stærð kvists og svala koma til með að minnka birtu í íbúðinni og útsýni frá norðurglugga Suðurgötu 51.
d) Talið er að framkvæmdin muni valda einhverju skuggavarpi á Suðurgötu 51 sem myndi rýra verulega verðgildi íbúðarinnar við Suðurgötu 51.
e) Bent er á að ef kvistur og svalir yrðu sett á vesturhlið Suðurgötu 49 í stað austurhliðar, hefðu framkvæmdirnar óveruleg áhrif á Suðugötu 51.

 

Suðurgata 51 í forgrunni, Suðurgata 49 til vinstri.

 

3. Sigríður Björnsdóttir, eigandi Suðurgötu 44. Móttekið 11. apríl 2018.

a) Komið á framfæri að þær viðbyggingar að bæta við kvisti á austurhlið Suðurgötu 49 komi ekki vel út.

 

4. Guðbjörg Sjöfn Eggertsdóttir, eigandi miðhæðar Suðurgötu 51. Dagsett. 12. apríl 2018.

a) Ekki er fallist á þær breytingar sem lagðar eru fram í umsókninni.

 

Suðurgata 49 séð frá Laugarvegi

 

5. Vilborg Jónsdóttir, eigandi Suðurgötu 47a. Dagsett. 15. apríl 2018.

a) Bent á mikilvægi þess að húsið haldi upprunalegu útliti. Þarna sé arkitektúr og byggingaraðferð sem mikið var notað á húsum á síldarárunum. Steypuhnallar ásamt hvítum línum á stöfnum hússins stór hluti af arkitektúr hússins. Saga þess og útlit hafi mikið tilfinningalegt gildi fyrir íbúa.

 

6. Leó R. Ólason, eigandi Suðurgötu 46. Dagsett 16. apríl 2018.

a) Húsið talið falla betur að götumynd sé það hraunað.
b) Hækkun þaks talið hafa áhrif á útsýni.

Tæknideild falið að vinna úr athugasemdum. Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar.

 

Texti: úr fundargerðum, nema skáletrað Gunnar Smári Helgason
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir.