Sveinn Rúnar Traustason, frá Bjarnagili í Fljótum, umhverfisstjóri hjá Ferðamálastofu, fékk á dögunum afhenta viðurkenninguna Uppsveitarbrosið. Um er að ræða viðurkenningu sem árlega er veitt einstaklingum eða fyrirtækjum sem hafa lagt ferðaþjónustunni í Uppsveitum Árnessýslu lið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Í rökstuðningi segir að Uppsveitirnar hafi átt einstaklega gott samstarf og samskipti við Svein Rúnar undanfarin ár vegna ýmissa verkefna sem unnin hafa verið á svæðinu og í tengslum við það. Með þessu vilja Uppsveitirnar vekja athygli á því sem vel er gert og árétta að samvinna sé ávallt undirstaða góðra verka.

Uppsveitabrosið sem slíkt er óáþreifanlegt en því fylgja jafnan handgerðir hlutir úr heimabyggð. Að þessu sinni er það „Matarkista Uppsveitanna“  þ.e. sýnishorn af matvælaframleiðslu á svæðinu.  Frá þessu er greint á vef Ferðamálastofu, ferdamalastofa.is.

Frétt fengin af vef: Feykis