Við feðgar, ég og Hannibal fórum okkar árlegu jeppaferð norður á Strandir nú á dögunum. Með okkur í för voru góðir félagar sem sumir hafa áður farið með. Mágur minn Hörður Erlendsson er einn þeirra og hefur nú farið allar fjórar ferðirnar eins og við.
Hann hefur líka verið einn aðal drifkraftur ferða okkar fram að þessu.

Með honum hefur þrisvar sinnum komið meistarinn, Óli á Reykjum í Mjóafirði. Sá er afar skemmtilegur ferðafélagi og ekki allir sem geta státað af jafnoka hans sem slíkum. Halldór Gunnar Hálfdánarson og Jón Númason komu nú með í sína fyrstu ferð á einum jeppa. Var það samdóma álit okkar sem áður höfum farið að þeir hafi bætt hópinn verulega.

Fyrsti farartálminn

 

Lögðum af stað héðan frá Sauðanesi þ. 19.04 eða á Sumardaginn fyrsta og keyrðum norður á Drangsnes. Þangað komu svo aðrir samferðamenn okkar og lögðum við á ráðin með framhald ferðarinnar. Alls vorum við 10 kallar á 5 jeppum.

Gistum á flottu gistiheimili á Drangsnesi sem er í eigu Ásbjarnar Magnússonar og heitir Malarhorn. Auðvelt og ljúft er að mæla með því við hvern sem þarna á leið um og þarfnast gistingar.

Þeir félagar Halldór Gunnar Hálfdansson, Hörður Erlendsson, Jón Trausti Traustason, Ásgeir Rúnar Harðarson og Hannibal Páll Jónsson.

 

Eftir góðan nætursvefn þar höfðum við okkur svo til og lögðum af stað inn Bjarnafjarðarháls. Þá var klukkan um 12:00 á hádegi. Stefnan var svo tekin inn Trékyllisheiði í átt að Búrfelli. Stoppuðum í gömlu slysavarnaskýli sem er innarlega á heiðinni en þar var fyrirhugað að baka vöfflur og hvað eina. Búið var að redda vöfflujárni sem hitað er með gasi til verksins. Ekki gekk vel að baka vöfflur með þessum búnaði og breytt var um matseðil á staðnum og skonsur bakaðar á pönnu í staðinn.

Voru þær það vel lukkaðar að mönnum óx ásmegin að loknu áti svo úr hófi keyrði hjá nokkrum af ökumönnunum. Keyrðu þeir eins og lífið væri að veði og sáum við hinir rólegri, þá fjarlægjast jafnt og þétt. Það var ekki fyrr en í erfiðuðustu brekkunum sem við náðum þeim og fórum þá fram úr þeim við tiltölulega lítil fagnaðarlæti þeirra.

Áð í skála á Trékyllisheiði, hér var rifið fram vöfflujárn og vöfflur bakaðar og hellt upp á kaffi

 

Að þessu sinni ákváðum við að fara vestan við Búrfellið til prufu en það höfðum við ekki áður gert í fyrri ferðum. Að sögn staðkunnugra er sú leið auðveldari og reyndist það rétt. Mun færri erfiðar brekkur eru þeim megin Búrfellsins og minna um hallasvæði. Allt gekk áfallalaust og vorum við komnir að leiðinni niður í Reykjarfjörð um Breiðadal kl. 17:30. Þar með vorum við komnir á gps slóð sem við áttum í tækjum okkar úr fyrri ferðum og gátum fylgt henni niður. Á einum stað á niðurleiðinni þarna er hóll einn mikill. Í undanförnum ferðum höfuð við látið okkur gossa fram af honum miðjum og hefur það verið alveg snarbratt.

Höfðum nú upplýsingar frá frænda mínum sem þarna þekkir hvern hól og laut, um betri leið. Hann hafði sagt mér að snjósleðaslóð lægi niður með hólnum vinstra megin sem væri mun betri. Fórum þá leið nú og var hún hin besta. Er við komum niður fyrr hólinn og horfðum upp hann, þá leið sem við höfðum áður farið, tel ég að við höfum verið algerlega brjálaðir að hafa nokkru sinni farið þar niður. Vorum komnir niður í Djúpavík upp úr kl. 18:00, í hús Vilborgar systir og Geirs mágs. Eftir góða máltíð fór svo hluti af hópnum norður í Krossneslaug sér til hressingar og endurlífgunar fram að miðnætti.

Reykjafjörður

 

Daginn eftir góðan nætursvefn var svo ákveðið að fjórir jeppar og átta kallar færu aftur upp á heiði og leitast yrði við að fara norður á Drangajökul. Tveir úr hópnum ákváðu að fara norður í sveit í heimsóknir og kjaftasnakk frekar en að fara upp. Margar brattar brekkur eru upp Breiðadalinn sem farin er og erfitt færi var í þeim. Það sem kom okkur á óvart og mér reyndar mjög skemmtilega á óvart var að 38 tommu breyttu bílarnir voru talsvert duglegri í þessum bröttu brekkum en þeir 44 ra og 46 tommu breyttu.

Ökumenn þessara meira breyttu skemmtu sér mun minna þarna á þessum tímapunkti. Allir komust þó upp og enginn okkar dó. Er við svo héldum af stað í átt að Drangajökli kom í ljós að við vorum heldur seint á ferðinni. Urmull er af vötnum þarna á svæðinu og svell var að hverfa af þeim flestum. Þurftum við því að krækja ótal hjáleiðir meðfram þeim og tafði það okkur.

 

Er klukkan var borin saman við vegalengdina sem eftir var ákváðum við að snúa til baka. Aldrei ætlunin að dvelja þarna fram á sumar. Þarna sögðu gps tæki okkar að enn væru 15 km eftir að jökli og fyrirséð að framhald yrði á vatnaskaki. Er við svo vorum lagðir af stað til baka þurftum við að fara yfir þar sem samliggjandi vötn voru. Á norðurleiðinni höfðum við laumað okkur yfir einskonar nes sem virtist vera á milli þeirra og fórum þá slóð aftur til baka.

Ekki vildi betur til en svo að flottasti og verðmætasti bíllinn í hópnum féll þar niður á hlið og var kolfastur. Krapahröngl og ísskarir lágu upp á miðjan bíl og útlitið ekki það bjartasta. Reynt var að draga bílinn lausan en bíllinn virtist sem steyptur niður.

Líklega er Drangajökull í þessa átt

 

Reyndum að nota spil sem var á einum bílnum og bundum þrjá bíla saman með blökk á milli og allt. Ekkert gerðist við það utan það að spilið rauðhitnaði og hreyfði ekki hinn fasta bíl.  Söknuðum þess þarna að eiga ekki meira vöffludeig þar sem hæglega hefði verið hægt að baka á spilinu þar sem það var svo heitt. Eftir um tveggja tíma mokstur og drætti á öflugustu bílunum náðist sá fasti þó upp og vorum við bara sáttir við það. Svo var haldið aftur niður í Djúpavík.

Þá var komið frost uppi með skafrenningi og versnandi skyggni. Allt gekk þó vel niður og var kærkomið að mæta aftur í ,,litla hús” Vilborgar og Geirs.

Djúpavík

 

Fljótamennirnir sáu svo um sannkallaðan veislumat, grillspjót með fjórum gerðum af kjöti auk alls konar ávaxta og grænmetis. Mikið var spjallað að loknum kvöldverði og farið yfir ferðina.

Héldum svo heim á sunnudeginum og voru allir sammála um að ferðin hafi verið hin skemmtilegasta og strax fór að verða vart við eftirvæntingu fyrir næsta ári.

Það var drukkið óheyrilegt magn af kaffi í bústað Vilborgar Traustadóttur og Geirs Zoega í Djúpuvík. — með Davið Fannar, Hannibal Páll Jónsson, Jón Trausti Traustason og Hörður Erlendsson.

 

Komum við á Hótel Djúpavík áður en við fórum og hittum frændfólk okkar þar. Alltaf nærandi að hitta þau og samræður þar gott veganesti fyrir heimferðina. Viljum líka enn og aftur þakka Vilborgu og Geir fyrir afnot af húsi þeirra. Ekki sjálfgefið að njóta slíkrar velvildar ár eftir ár en mun sitja lengi í minningunni.

Hér er slóð inn á myndband Halldórs Gunnars Hálfdánarsonar sem hann tók í ferðinni
Texti: Jón Trausti Traustason
Myndir: Halldór Gunnar Hálfdánarson