Lending hefur náðst um fyrirkomulag sjúkraflutninga í Ólafsfirði. Í verður dag skrifað undir samning um að björgunarsveitin á Ólafsfirði taki að sér að mynda viðbragðsteymi.  Bakvakt fyrir sjúkraflutninga á Ólafsfirði var lögð niður fyrir tæpu ári og hefur sjúkraflutningum verið sinnt frá Siglufirði og Dalvík. Illa hefur gengið að koma á fót viðbragðsteymi sjálfboðaliða, sem átti að veita fyrstu hjálp í neyðartilfellum, eftir að vaktin var lögð af.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands vildi að björgunarsveitin tæki verkefnið að sér en margir íbúar mótmæltu og tóku ekki annað í mál en að fyrirkomulaginu yrði breytt til fyrra horfs.

Skrifað undir samning í dag

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir að nú sjái fyrir endann á óvissunni. „Við höfum verið að klára samkomulag við björgunarsveitina um að þeir komi að því að setja upp viðbragðslið og ég geri ráð fyrir því að það verði hreinlega skrifað undir samning í dag,“ segir Jón Helgi.

Tómas Atli Einarsson

Svar ráðherra réð úrslitum

Tómas Atli Einarsson, formaður björgunarsveitarinnar Tinds á Ólafsfirði, segir að svar Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, þess efnis að fyrirkomulagi sjúkraflutninga á Ólafsfirði verði ekki breytt til fyrra horfs, hafi ráðið því björgunarsveitin taki verkefnið að sér. „Ráðherra er búin að gefa það út að sjúkrabíllinn kemur ekkert aftur hérna, alla vega ekki í bráð. Þannig að ef íbúar Ólafsfjarðar vilja hafa eitthvert viðbragð á staðnum þá er þetta náttúrulega eina úrræðið sem til er, eins og staðan er núna,“ segir Tómas Atli.

Hann er bjartsýnn á að það takist að manna teymið og segir kærkomið að lausn sé í sjónmáli. „Þetta er náttúrulega búið að vera bagalegt ástand hér í bænum, að hafa ekki neitt viðbragð nema frá Dalvík eða Siglufirði. Við viljum bregðast við því með því að stofna þetta teymi,“ segir Tómas Atli.

Frétt og mynd fengin af vef: RÚV
Myndir af: vef