Frá og með 1. apríl 2021 gildir ný reglugerð nr. 355/2021, um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Í tilefni af fyrirspurnum sem borist hafa um sóttvarnahús og önnur nýmæli tengd þessari reglugerðarbreytingu hefur ráðuneytið tekið saman helstu spurningar og svör við þeim:
Hverjir teljast ferðamenn?
Með ferðamanni/farþega er átt við hvaða einstakling sem er, sem ferðast milli landa, hvort sem hann er búsettur hér á landi eða erlendis. Eftirfarandi upplýsingar gilda því um alla sem koma til landsins.
Hverjir þurfa að fara í sýnatöku?
Allir sem koma til landsins þurfa að fara í sýnatöku á landamærum, hvaðan sem þeir koma og á hvaða aldri sem þeir eru, líka þeir sem eru með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrra smit. Þeir sem eru með fyrrnefnd vottorð skulu vera í heimasóttkví þar til neikvæð niðurstaða liggur fyrir úr sýnatöku.
Hverjir þurfa að fara í sóttkví?
Allir sem koma til landsins þurfa að fara í sóttkví eftir skimun á landamærum og í aðra skimun að sóttkví lokinni nema þeir sem eru með gilt bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrra smit.
Þurfa börn að fara í sóttkví?
Börn fædd 2005 eða síðar fara í sýnatöku á landamærunum. Ferðist barn með einstaklingi sem skylt er að sæta sóttkví dvelur barnið þar með honum og losnar úr sóttkví ef síðara sýni úr samferðamanni er neikvætt. Ef samferðamaðurinn er undanþeginn sóttkví er barnið það sömuleiðis. Barn sem ferðast eitt þarf ekki að fara í sóttkví.
Hverjir þurfa að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi?
Allir sem koma frá eða hafa dvalið í meira en sólarhring síðastliðna 14 daga á svæði þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500 eða fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir, svokölluð dökkrauð eða grá svæði, skulu dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi.
Hverjir geta verið í sóttkví í heimahúsi?
Fólk sem kemur frá löndum sem ekki eru á lista yfir dökkrauð eða grá svæði er heimilt að vera í sóttkví í heimahúsi þar til neikvæð niðurstaða úr síðari sýnatöku liggur fyrir. Leiðbeiningar um heimasóttkví á vef embættis landlæknis.
Hvernig veit ég hvort landið sem ég kem frá telst dökkrautt eða grátt?
Sóttvarnalæknir birtir lista yfir lönd eða svæði sem eru dökkrauð og grá og hann er birtur sem fylgiskjal með reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Listinn er birtur hér og er uppfærður reglulega.
Er hægt að fá undanþágu frá sóttkví í sóttvarnahúsi?
Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá dvöl í sóttkví í sóttvarnahúsi vegna mjög sérstakra aðstæðna, svo sem fatlaðra barna, enda sé tryggt að það komi ekki niður á smitvörnum. Ekki er gert ráð fyrir því að almennt verði veittar undanþágur frá dvöl í sóttvarnahúsi.
Hvað kostar að dvelja í sóttvarnahúsi?
Þann 11. apríl 2021 verður byrjað að innheimta gjald fyrir dvöl í sóttvarnahúsi en þangað til er hún gjaldfrjáls. Tekið verður gjald fyrir hvert herbergi, 10.000 kr. og er matur innifalinn. Gjaldið er það sama fyrir herbergi og fæði, hvort sem fólk dvelur þar eitt eða með öðrum sem það ferðast með.
Fer fólk sjálft í sóttvarnahús eða er boðið upp á flutning?
Þeim sem þurfa að fara í sóttvarnahús er boðið upp á flutning þangað með hópbifreiðum. Ef fólk er með einkabíl til ráðstöfunar er því heimilt að aka sjálft í sóttvarnahús en brýnt er að fara þangað rakleiðis og án tafar.
Get ég fengið sendingar til mín í sóttvarnahús?
Meðan á dvöl í sóttvarnahúsi stendur er heimilt að koma smámunum, til dæmis tölvum og afþreyingarefni, til einstaklinga sem dvelja þar, með milligöngu starfsfólks sóttvarnahúss.
Má ég fara út af sóttvarnahúsinu meðan á sóttkví stendur?
Nei, það er óheimilt.