Frá og með 9. apríl 2021 gildir ný reglugerð nr. 375/2021, um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Ráðuneytið hefur tekið saman eftirfarandi spurningar og svör sem lúta að inntaki reglugerðarinnar og framkvæmd hennar: 

Hverjir teljast ferðamenn/farþegar?

Með ferðamanni/farþega er átt við hvaða einstakling sem er, sem ferðast milli landa, hvort sem hann er búsettur hér á landi eða erlendis. Eftirfarandi upplýsingar gilda því um alla sem koma til landsins.

Hverjir þurfa að sæta sóttvarnaaðgerðum á landamærum?

Sóttvarnaaðgerðir á landamærum taka jafnt til allra sem koma frá löndum sem sóttvarnalæknir skilgreinir sem áhættusvæði.

Hvernig er ferlið þegar ég kem til landsins með flugi?

Flugfélög miðla upplýsingum til farþega sinna við brottför erlendis frá. Við komuna til landsins fara allir farþegar í sýnatöku í flugstöðinni. Að sýnatöku lokinni fá farþegar upplýsingar frá landamæraverði um næstu skref. 

Hverjir þurfa að fara í sýnatöku?

Allir sem koma til landsins frá skilgreindum áhættusvæðum þurfa að fara í sýnatöku á landamærum, á hvaða aldri sem þeir eru, líka þeir sem eru með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrra smit. Þeir sem eru með fyrrnefnd vottorð skulu vera í heimasóttkví þar til neikvæð niðurstaða liggur fyrir úr sýnatöku. 

Hverjir þurfa að fara í sóttkví?

Allir sem koma til landsins frá skilgreindum áhættusvæðum þurfa að fara í sóttkví eftir skimun á landamærum og í aðra skimun að sóttkví lokinni nema þeir sem eru með gilt bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrra smit. 

Þurfa börn að fara í sóttkví?

Börn fædd 2005 eða síðar fara í sýnatöku á landamærunum. Ferðist barn með einstaklingi sem skylt er að sæta sóttkví dvelur barnið þar með honum og losnar úr sóttkví ef síðara sýni úr samferðamanni er neikvætt. Ef samferðamaðurinn er undanþeginn sóttkví er barnið það sömuleiðis. Barn sem ferðast eitt þarf ekki að fara í sóttkví. 

Hverjir þurfa að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi?

Þeir sem ekki hafa tök á að vera í heimasóttkví og/eða kjósa frekar að dvelja í sóttvarnahúsi eiga kost á því. Dvölin er viðkomandi að kostnaðarlausu. Þeim sem dvelja í sóttvarnahúsi verður gert kleift að njóta útiveru og sérstakt tillit verður tekið til barna, s.s. varðandi útiveru og annan aðbúnað. Gerist einstaklingur uppvís að því að brjóta heimasóttkví getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli ljúka sóttkví í sóttvarnahúsi.

Hverjir geta verið í sóttkví í heimahúsi?

Allir sem þurfa að vera í sóttkví geta verið í henni í heimahúsi ef þar er hægt að uppfylla skilyrði og umgengnisreglur samkvæmt nýjum leiðbeiningum sóttvarnalæknis. Í því felst að einstaklingur skuli vera einn á dvalarstað en ef fleiri dveljast þar þurfa þeir að sæta öllum sömu skilyrðum sóttkvíar. Þeir sem ekki geta dvalið í heimasóttkví sem uppfyllir skilyrði sóttvarnalæknis þurfa að dvelja í sóttvarnahúsi. 

Er eftirlit með því að sóttvarnareglum sé fylgt?

Já, það er eftirlit og unnið er að því að efla það í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Eru sektir við brotum á reglum um sóttkví?

Já, það eru sektir fyrir brot á sóttkví og nýlega var komið á framfæri við ríkissaksóknara tillögu sóttvarnalæknis um að þær verði hækkaðar til muna.

Skoða á vef Stjórnarráðsins

Mynd: Haraldur Jónasson / Hari