Hafþór Eiríksson, stjórnarformaður SR-Vélaverkstæðis hf. og SR-Byggingavara ehf, staðfesti í samtali við Trölla.is að til uppsagna hafi komið hjá fyrirtækinu vegna viðvarandi verkefnaskorts og ýmissa ytri aðstæðna í samfélaginu.
Starfsfólki hefur verið boðið að starfa áfram út uppsagnarfrestinn og hyggjast flestir sinna verkefnum þar næstu vikur. Fyrirtækið vinnur jafnframt að því að afla nýrra verkefna og ef vel tekst til gæti komið til endurskoðunar á forsendum uppsagnanna. Hins vegar er ekki hægt að gefa nein loforð um framhaldið.
Að sögn Hafþórs Eiríkssonar var ákvörðunin um uppsagnir afar þung fyrir stjórnina og erfið skref að stíga. Málið hefur þegar verið kynnt bæði bæjarstjóra Fjallabyggðar og hluthöfum fyrirtækisins.
Engin áform eru um að loka verslun SR-Byggingavara og fengu tveir tarfsmenn hennar ekki uppsögn.
Meðal þeirra aðila sem eiga fyrirtækið eru starfsmenn SR-Vélaverkstæðis og Síldarvinnslan í Neskaupstað sem á 37 prósent í félaginu. SR-Verkstæði hefur alla tíð þjónustað sjávarútveginn.