Nú stendur yfir fjórða bylgja heimsfaraldursins og hefur smitum aldrei fjölgað jafn mikið og hratt og síðustu daga. Hjá okkur í Húnaþingi vestra hefur verið lítið um smit síðustu mánuði en nú er fjórða bylgjan að teygja sig til okkar og í gær 29. desember eru fjórir í einangrun í sveitarfélaginu og 10 í sóttkví.

Nýja Ómíkron afbrigðið virðist smitast mun meira en fyrri afbrigði og því er mikilvægt að gæta vel að persónubundnum sóttvörnum. Nú ættu allir að vera meðvitaðir um rétt viðbrögð en nú sem áður er mikilvægt að allir fylgi gildandi sóttvarnareglum.  Einnig er minnt á mikilvægi þess að vera með smitrakningarappið C-19 virkt. 

Reglulegur handþvottur, sprittun og grímunotkun þar sem hún á við eru nú sem áður mikilvæg. Einnig er mikilvægt að virða nálægðarmörk í öllum samskiptum.

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra fundar nú reglulega og beinir þeim tilmælum til íbúa að halda ferðalögum milli landshluta í lágmarki og forðast eins og kostur er ferðalög til höfuðborgarsvæðisins sem og til annarra svæða sem talin eru útsett fyrir smitum. Einnig beinir aðgerðastjórn þeim tilmælum til íbúa að þeir sem finna fyrir einkennum haldi sig heima og hafi samband við næstu heilsugæslustöð.

Hægt er að fylgjast með smittölum og upplýsingum frá aðgerðastjórn á facebook síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Skrifstofur sveitarfélagsins eru opnar líkt og venjulega en íbúar og aðrir þeir sem sækja þurfa þjónustu sveitarfélagsins eru hvattir til að nýta sér símaþjónustu eða óska eftir netfundum. Jafnframt eru íbúar hvattir til að nota bréfalúgu við starfsmannainngang Ráðhússins til að skila af sér gögnum.

Starfsemi sveitarfélagsins er almennt með hefðbundnu sniði en tekur þó mið af sóttvarnareglum hverju sinni ásamt stöðu smita í samfélaginu. Verði breytingar á þjónustunni verða upplýsingar þess efnis birtar á vefsíðu sveitarfélagsins.