Miklar umræður hafa skapast í þjóðfélaginu varðandi snjallsíma notkun í skólum og sitt sýnist hverjum.

Fréttir berast af því að skólar hafi lagt bann við notkun snjalltækja í skólastarfi, ýmsir fagna umræðunni og banninu og telja það til marks um raunsæi frammi fyrir gríðarlegum vanda sem steðjar að ungu fólki í dag. Aðrir telja bannið tímaskekkju og fela í sér uppgjöf.

Lára Stefánsdóttir skólameistari við Menntaskólann á Tröllaskaga velti fyrir sér banni á snjallsímum á facebooksíðu sinni í gær. Þar hafa verið líflegar umræður um þennan þankagang Láru.

“Ég er búin að vera að velta fyrir mér umræðu um snjallsímaleysi sem menn telja að muni breyta gríðarlegu um alskyns hluti. Bjargvættur hamingjunnar, hvíldarinnar og allir verða svo skemmtilegir og góðir. Svona kvikkfix á umhverfið.
Eftir því sem ég hugsa þetta meira og er ég komin á þá skoðun að orkulaus dagur væri líklega töluvert betri. Ekkert rafmagn og ekkert eldsneyti. Laus við sjónvarp, útvarp, akstur, umferð, eldamennsku, ljós, snjallsíma, tölvur. Taka upp gítarinn og syngja ef manni vantar tónlist.
Ég man ennþá eftir ávítum yfir því að hanga í símanum sem unglingur, bara svona venjulegum skífusíma og hvernig veröldin væri að fara fjandans til. Maður ætti að fara í heimsókn til fólks. Unglingar héngu í símanum lon og don í einhverju tilgangslausu blaðri ef ég man rétt. Hinir næstumþvífullorðnu eru alltaf að gera eitthvað sem væri betra á gamla mátann.
Á sama tíma og kennarar og skólastjórnendur vinna hörðum höndum að snjallasímalausum kennslustundum, snjallsímalausum kennsludögum og snjallsímalausum vikum þá er menntun um tæknina afar ábótavant. Umræðan er frekar um hvar á að geyma síma í staðinn fyrir hvernig er hægt að nota þá.
Jamm, líklega eru allir nútímar vondir og erfitt að þróa tæknina inn í daglegt líf á skynsaman hátt. Ég veit þó ekki hvort leysisdagar eða vikur hafa nokkur áhrif á nokkuð til lengri tíma. En það er kannski auðvelt fyrir marga að trúa því”.

 

Á vefsíðu umboðsmanns barna er því haldið fram, að það sé ekki í samræmi við réttindi nemenda að starfsfólk skóla megi samkvæmt skólareglum taka síma og og önnur snjalltæki af nemendum gegn vilja þeirra.
Sjá nánar: Reglur um snjallsíma í skólum

 

Forsíðumynd og frétt: Kristín Sigurjónsdóttir