Matvælastofnun minnir á mikilvægi þess að fólk tilkynni til stofnunarinnar um dauða villta fugla. Fuglaflensa hefur greinst í 19 sýnum af 76 sem rannsökuð hafa verið. Reglur um tímabundnar varnaraðgerðir eru enn í gildi en vonir standa til að þeim megi fljótlega aflétta að öllu óbreyttu.

Mikilvægt er að fólk tilkynni um dauða villta fugla og stofnunin þakkar fyrir þær fjölmörgu tilkynningar sem berast. Þessar tilkynningar skipta máli við mat á útbreiðslu og tíðni. Best er að tilkynna með því að skrá ábendingu á heimasíðu Matvælastofnunar. Starfsmenn stofnunarinnar fara yfir allar ábendingar og meta hvort taka skuli sýni eða ekki. Matið byggist m.a. á því um hvaða fuglategund er að ræða og hvar fuglinn finnst. Ekki er hægt að taka sýni úr öllum fuglum sem finnast en mikilvægt er samt fyrir stofnunina að fá tilkynningar.

Ef vart verður við veika villta fugla skal tilkynna um það til viðkomandi sveitarfélags, sem er skylt að sjá til þess að fuglinum sé komið til hjálpar eða hann aflífaður á mannúðlegan hátt, samkvæmt lögum um velferð dýra. Fyrir utan opnunartíma sveitarfélaga er hægt að hafa samband við lögreglu.

Grunsamleg veikindi eða óeðlileg aukin dauðsföll í alifuglum og öðrum fuglum í haldi, skal tilkynna án tafar til Matvælastofnunar eða sjálfstætt starfandi dýralæknis, sem hefur svo samband við Matvælastofnun ef hann telur að um fuglaflensu geti verið að ræða.

Fram til þessa hafa fuglaflensuveirur greinst í sýnum úr 19 villtum fuglum af 8 tegundum (grágæs, haferni, heiðagæs, helsingja, hrafni, skúmi, súlu og svartbaki). Nánari upplýsingar um greiningarnar er að finna á kortasjá MAST.

Enn eru í gildi reglur sem settar voru af ráðherra í mars um hertar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla. Matvælastofnun metur stöðugt smithættu fyrir alifugla, m.a. á grundvelli dreifingar villtra fugla, tilkynninga um dauða villta fugla og greininga á sýnum. Vonir standa til að fljótlega verði hægt að aflétta takmörkunum, sér í lagi vegna þess að villtir fuglar eru ekki lengur í stórum hópum í nágrenni búa og annarra staða sem fuglar eru í haldi.

Ítarefni

Upplýsingasíða Matvælastofnunar um fuglaflensu