Staða íslenskra háskólanema í alþjóðlegu samhengi: Könnun 2019
Niðurstöður samanburðarkönnunar á högum háskólanema í 26 löndum á evrópska háskólasvæðinu hafa nú verið kynntar. Könnunin (e. EUROSTUDENT) var lögð fyrir á vorönn 2019 en þetta var í annað sinn sem Ísland tekur þátt, en könnunin fer fram á þriggja ára fresti.
Könnunin náði til háskólanema í grunn- og meistaranámi við alla háskóla á Íslandi og er byggð á ítarlegum svörum rúmlega 2.600 þátttakenda. Íslenski hluti könnunarinnar var unnin af mennta- og menningarmálaráðuneyti og annaðist Maskína framkvæmd verkefnisins hér á landi.
Meðal helstu niðurstaðna:
• Íslenskir háskólanemar eru almennt eldri en gengur og gerist í Evrópu, en hér er næstlægst hlutfall stúdenta undir 25 ára aldri og er það einungis lægra í Finnlandi. Hvergi eru jafn margir háskólanemar með börn á framfæri og hér á landi (32%).
• Nemendur við íslenska háskóla skila sér fremur seint í nám, en 53% nemenda hafa látið ár eða lengur líða frá því þeir luku námi á framhaldsskólastigi áður en þeir hófu nám við háskóla, og 28% taka sér námshlé, sem er lengra en tvö ár, sem er svipað og árið 2016.
• Rúm 80% stúdenta sem eiga háskólamenntaða foreldra hafa hafið háskólanám innan tveggja ára frá lokum stúdentsprófs, en einungis rúmlega 60% þeirra sem eiga foreldra sem ekki hafa lokið háskólaprófi. Á Íslandi er þó hlutfall síðarnefnda hópsins í háskólasamfélaginu á pari við hlutfall karlmanna án háskólagráðu sem gefur merki um að menntunarstig foreldra hafi minni áhrif á aðgengi að háskólanámi á Íslandi en í öðrum löndum Evrópu.
• Meirihluti svarenda virðist hafa fundið nám sem hentar þeim vel og svara því til að þeir myndu mæla með núverandi námi sínu (79%), og 66% svara því til að alltaf hafi legið fyrir að þeir myndu fara í háskólanám.
• Rúmlega 90% svarenda tilgreina að þeim semji almennt vel við kennara sína og 75% að kennarar hafi almennt áhuga á því sem þeir hafi fram að færa.
• Um 72% íslenskra háskólanema vinna með námi, um helmingur þeirra vinnur meira en 10 tíma á viku, og þriðjungur meira en 20 tíma á viku. Er þetta þriðja hæsta hlutfall vinnandi háskólanema í þeim löndum sem skýrslan nær til og hæst á Norðurlöndum. Nemendur sem ekki eiga háskólamenntaða foreldra eru mun líklegri til að hafa tekið þátt í atvinnulífinu (64%) áður en þeir skrá sig í háskólanám en þeir sem eiga foreldra með háskólapróf (45%)
• Um þriðjungur (31%) háskólanema telja sig glíma við alvarlegan eða mjög alvarlegan fjárhagsvanda, þó það hlutfall hafi lækkað frá síðustu könnun (var 34%).
• Á Íslandi er hlutfall nemenda sem telja sig ekki hafa fjárhagslega burði til að stunda nám án vinnu hæst landanna (71%) og er staðan verst (81%) meðal þeirra nema sem koma úr fjölskyldum þar sem foreldrar hafa ekki sjálfir háskólamenntun.
Umtalsverðar breytingar hafa orðið á högum háskólanema að undanförnu sökum áhrifa heimsfaraldurs COVID-19. Nemendum hefur fjölgað í háskólum og einstaklingar sem misst hafa vinnu snúið aftur í nám til að auka við færni á erfiðum vinnumarkaði. Fyrirkomulagi námslána var breytt með nýjum lögum um Menntasjóð námsmanna árið 2020 en með því er lögð aukin áhersla á jafnrétti og gagnsæi í stuðningi ríkisins við námsmenn meðal annars með því að greiddir eru styrkir til framfærslu barna í stað lána, námsmenn geta fengið 30% niðurfellingu á höfuðstól námslána ljúki þeir námi á tilskyldum tíma og geta valið við námslok hvort lán þeirra séu verð- eða óverðtryggð. Var þetta gert meðal annars til að bregðast við niðurstöðum könnunarinnar sem birt var 2018.
Ráðuneytið mun standa fyrir rafrænu málþingi í haust til frekari kynningar á EUROSTUDENT VII skýrslunni og niðurstöðum hennar. Þá verður einnig gefin út landsskýrsla sem beinir sjónum að íslensku niðurstöðunum í alþjóðlegu samhengi. Fyrir liggur að ekki náðu öll þátttökulönd að klára vinnslu sinna gagna vegna áhrifa COVID-19 faraldursins. Því er skýrslan sem nú er aðgengileg ekki endanleg og ráðgert er að birta uppfærða útgáfu hennar í haust.
Forsíðumynd: Golli
Skoða á vef Stjórnarráðsins