Það verður mikið um að vera á Siglufirði um næstu helgi en þá er haldið upp á hinn árlega Trilludag, þar sem boðið eru upp á siglingar, sjóstangveiði, mat og ýmsar uppákomur. Auk þess verður vígsla á minnisvarða um síldarstúlkur, málþing, síldarsöltun og bryggjuball. Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir og fleiri góðir gestir munu heiðra samkomuna.

Málþing í Bátahúsinu – síldarstúlkum til heiðurs frá 10:00-12:00

Næstkomandi laugardagsmorgun, þ.e. 29. júlí fer fram málþing þar sem fjallað verður um  þátt síldarstúlkna í sögunni en óhætt er að segja að íslenskar síldarstúlkur hafi sett mark sitt á atvinnusögu þjóðarinnar.

Málþingið fer fram í Bátahúsi Síldarminjasafnsins og hefst kl. 10:00

Fyrirlesarar munu flytja fjölbreytt erindi: Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafns Íslands flytur ávarp.  Jóna Möller fjallar um tilurð minnisvarðans. Hallgrímur Helgason, rithöfundur er með erindi undir yfirskriftinni; „70 stúlkur í brakka“. Margrét Guðmundsdóttir, sagnfræðingur; Stritvinna síldarstúlkna og ævintýri útgerðarmanna. Síldarsöltun á Hjalteyri 1915. Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir nútímasíldarstúlka; Áhrif síldarstúlkna á jafnréttis- og kjarabaráttu kvenna á Íslandi. Egill Helgason fjölmiðlamaður;  Síldarstúlkan – Parísardaman. Edda Björk Jónsdóttir sérfræðingur fræðslu og miðlunar á Síldarminjasafni Íslands;  Síldarstúlkur og valdefling kvenna og Örlygur Kristfinnsson myndlistarmaður og fyrrum safnstjóri; Kynni mín af síldarstúlkum.

Trilludagar á Siglufirði frá kl. 10:00-16:00

Öðruvísi fjölskylduhátíð á Siglufirði. Boðið verður upp á sjóstangveiði, siglingar, mat og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Siglufjörður iðar af lífi þegar fjölskylduhátíðin Trilludagar verður haldin laugardaginn 29. júlí, þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Gestum verður boðið á sjóstöng og í útsýnissiglingu út á fjörðinn fagra. Kiwanismenn standa grillvaktina þar sem gestum og gangandi verður boðið að smakka dýrindis fisk beint úr hafi. Skemmtileg afþreying fyrir börn og fullorðna allan daginn. Tónlistin mun svo óma af Trillusviði yfir daginn og endar á síldasöltun og bryggjuballi á planinu við Róaldsbrakka fyrir alla fjölskylduna.

Vígsla minnisvarða um síldarstúlkuna frá kl. 15:00-16:00

Minnisvarðinn verður afhjúpaður kl. 15:00. Verkið verður formlega afhent Fjallabyggð til eignar en almenn umsjón með verkinu verður í höndum Síldarminjasafns Íslands.  

Dagskrá vígslunnar:

  • Kristján L. Möller, stýrir athöfninni
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, flytur ávarp og afhjúpar verkið
  • Þórunn Þórðardóttir, fulltrúi stjórnar RÆS
  • Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar
  • Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins,
  • Tónlistaratriði: Edda Björk Jónsdóttir, Daníel Pétur Daníelsson og Hörður Ingi Kristjánsson.

Á þessu ári eru liðin 120 ár frá því að Norðmenn hófu síldveiðar frá Siglufirði, en síldveiðar við Ísland hófust fyrir rúmum 150 árum. Þegar best lét á síldarárunum voru síldarstúlkur á Siglufirði um þúsund talsins og voru þær tilbúnar til að bjarga verðmætum dag og nótt, hvernig sem viðraði.  Af því tilefnið hefur RÆS – minningarfélag um síldarstúlkuna á Siglufirði látið smíða og setja upp minnisvarða um síldarstúlkuna.  Höfundur listaverksins er Arthur Ragnarsson myndlistarmaður og smíði verksins var unnin á SR Vélaverkstæði á Siglufirði eftir frummyndum og í umsjá listamanns. Í samráði við Síldarminjasafn Íslands hefur listaverkið verið staðsett á bryggjuplani sem reist hefur verið í sjó framan við safnið.

Skúlptúrinn er unninn í corténstál og myndar þrjár kvenfígúrur sem standa við fimm síldartunnur. Listaverkið er upplýst frá botni síldartunnanna og þegar rökkva tekur glitrar gullin spegilmynd verksins í sjónum. Ríkisstjórn Íslands styrkti gerð minnisvarðans og ýmiss fyrirtæki víðs vegar um landið.

Að vígslu lokinni verður síldarsöltun og bryggjuball á planinu við Róaldsbrakka.

Mynd/af facebook síðu Trilludaga