Heilbrigðisráðuneytið hefur tekið saman yfirlit þar sem birtar eru staðfestar áætlanir framleiðenda um vikulega afhendingu bóluefna gegn COVID-19 í apríl, auk upplýsinga um fjölda bóluefnaskammta sem þegar hafa verið afhentir. Í apríl er von á tæplega 65.300 bóluefnaskömmtum frá þeim fjórum framleiðendum sem eru með markaðsleyfi hér á landi. Pfizer er eini framleiðandinn sem hefur staðfest afhendingaráætlun til lengri tíma og samkvæmt henni er von á 117.000 bóluefnaskömmtum samtals í maí – júní.
Í lok nýliðins ársfjórðungs hafði Ísland fengið samtals um 75.000 bóluefnaskammta frá því að bólusetningar gegn COVID-19 hófust hér á landi 29. desember síðastliðinn, eða að meðaltali tæplega 25.000 skammta á mánuði. Mánaðarleg afhending hefur því aukist um 160% miðað við að í vændum eru tæplega 65.300 skammtar í apríl.
Vaxandi framleiðslugeta og hraðari afhending
Lyfjastofnun Evrópu hefur átt í stöðugum samræðum við markaðsleyfishafa bóluefna gegn COVID-19 með aukna framleiðslu í álfunni að leiðarljósi. Meðal annars hafa verið samþykktir í þessu skyni nýir framleiðslustaðir í Evrópu fyrir bóluefni AstraZeneca, Pfizer og Moderna. Nýleg afhendingaráætlun Pfizer endurspeglar vaxandi framleiðslugetu bóluefnaframleiðenda. Samkvæmt staðfestri afhendingaráætlun berast Íslandi 37.000 skammtar í apríl, 54.000 skammtar í maí og 63.000 skammtar í júní.
Meðfylgjandi yfirlit verður uppfært eftir því sem staðfestar afhendingaráætlanir berast frá framleiðendum.