Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga er með óhefðbundnu sniði vegna aðstæðna í samfélaginu. Þar sem starfsfólk og nemendur í MTR huga bara í lausnum, verður sýningin þetta árið í stafrænu formi. Hún verður opnuð laugardaginn 16. maí kl. 8:00.
Hér er slóð á sýninguna: https://www.mtr.is/vor2020
Best virkar að skoða hana í Google chrome vafranum.
Sýningin endurspeglar vel einkunnarorð skólans: Frumkvæði – Sköpun – Áræði. Hún er á vefnum Artsteps sem er stafrænt sýningarrými.
Þar má sjá verk úr myndlistaráföngum og ljósmyndaáföngum. Hlekkir eru á vefsíðunni sem veita aðgang að verkum nemenda úr ýmsum öðrum áföngum. Meðal annars ljóð sem nemendur hafa samið og fleiri verkefni úr íslensku, líka verk um jákvæða sálfræði og kvennasögu, svo eitthvað sé nefnt.
Líka tónlist, umfjöllun um götulist á netinu og áhugaverð podköst um lífið á dögum Covid-19. Það eru yfir tvö hundruð myndverk á stafrænu sýningunni og endurspegla þau vel kraftmikið og skapandi starf á önninni.
Sýningarstjóri er Bergþór Morthens, myndlistarkennari. Aðstoðarmaður hans við uppsetninguna var Gísli Kristinsson, kerfisstjóri.