Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur gefið út sína fyrstu stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna. Ásmundur Einar Daðason kynnti stefnuna við setningu á ráðstefnunni Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2022 – Tækifæri og áskoranir í nýju landslagi í morgun.

Hér er um að ræða ákveðin tímamót í sögu málaflokksins og vegvísir til framtíðar um það sem mennta- og barnamálaráðuneytið hyggst leggja áherslu á til að styðja við félags- og tómstundastarf. Aðgerðir byggðar á stefnunni miða að því að tryggja öllum börnum og ungmennum fjölbreytt og framúrskarandi tómstunda- og félagsstarf með virka þátttöku að leiðarljósi.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Það er verkefni okkar allra að búa öllum börnum og ungmennum aðstæður sem gerir þeim kleift að þroskast og blómstra enda er hagsæld samfélagsins fólgin í því.“

Fram undan eru margvísleg verkefni sem stuðla eiga að framgangi stefnunnar. Ber þar hæst endurskoðun æskulýðslaga og þarfagreining um þjónustuvettvang tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna. Brýnt er að tengja málaflokkinn enn frekar við farsældarlöggjöfina til að styðja við samþættingu þjónustu við börn og ungmenni og nýta þá þekkingu og reynslu sem er til staðar.

Gildistími stefnunnar er til ársins 2030 með aðgerðaáætlun til þriggja ára í senn. Fram undan eru spennandi tímar í málefnum barna og ungmenna.

Mynd/aðsend