Hljómsveitin Stormar er upphaflega unglingahljómsveit sem stofnuð var á Siglufirði 1963. Stormar spiluðu samfellt, með nokkrum mannaskiptum, til haustsins 1969, en þá fluttu nokkrir meðlimir hljómsveitarinnar burt eins og oft vill verða hjá ungum mönnum, sumir fluttu suður til Reykjavíkur, aðrir til náms erlendis, og hljómsveitin hætti.

Gömur mynd af Stormum

 

Árið 1991 vaknaði áhugi á því að endurvekja Storma og tókst að smala saman mönnum sem sumir höfðu verið í upphaflegu Stormum, en aðrir starfað í öðrum hljómsveitum.

Í þessari 1991 útgáfu Storma voru: Theodór Júlíusson og Ómar Hauksson, sem báðir hafa verið meðlimir hljómsveitarinnar frá upphafi, Árni Jörgensen, Friðbjörn Björnsson, Hallvarður Óskarsson, Jósep Blöndal og Rafn Erlendsson. Hljómsveitin spilaði töluvert, kom m.a. til Siglufjarðar á hverju sumri og spilaði ýmist á útisviði í miðbæ Siglufjarðar, Hótel Höfn eða Bíóinu.

Stormar á útisviði á Siglufirði

 

Þeir félagar í Stormum veittu oft menningarstyrki í þessum ferðum til ýmissa félagssamtaka á Siglufirði.

Hljómsveitin Stormar hélt sína lokatónleika á Kaffi Rauðku 3. ágúst í fyrrasumar.

 

Nú er öldin önnur í Fjallabyggð og þar er nú nýlega stofnuð unglingahljómsveit, Ronja og Ræningjarnir.

Ronja og Ræningjarnir á æfingu í nýja æfingahúsnæðinu.

 

Það er tónlistarkennarinn Guðmann Sveinsson sem er lærifaðir hljómsveitarinnar og hefur unnið með krökkunum í tónlistinni frá byrjun.

Guðmann Sveinsson tónlistarkennari

 

Í gær, sunnudaginn 26. ágúst, afhentu fulltrúar Storma, þeir Ómar og Theodór, Ronju og Ræningjunum gjafabréf þetta.

Athöfnin fór fram í æfingahúsnæði sem Róbert Guðfinnsson og Selvík ehf hafa lánað krökkunum. Theodór hélt stutta tölu, rakti sögu Storma í stórum dráttum og sagði frá því að Stormar vildu arfleiða unga og efnilega hljómsveit í Fjallabyggð að græjunum sínum, sem eru hljóðkerfi, trommusett og fleira.

“Daddi Júll” og Ronja með gjafabréfið.

 

Hljómsveitin Ronja og Ræningjarnir fluttu þrú lög, sem þakklætisvott. Hér fyrir neðan er myndskeið af einu laganna.

 

<iframe src="https://player.vimeo.com/video/286794508" width="640" height="360" frameborder="0" allowfullscreen></iframe>

 

Ættingjar og vinir voru viðstaddir afhendinguna.

 

Fulltrúar Storma ásamt Ronju og Ræningjunum

 

Ágætt fundarherbergi/setustofa er einnig í æfingahúsnæðinu.

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: úr söfnum og Kristín Sigurjónsdóttir