Vinirnir frá Siglufirði þeir Hörður Ingi Kristjánsson, Mikael Sigurðsson og tvíburabræðurnir Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir sigruðu hina geysivinsælu Söngkeppni framhaldskóla sem fram fór í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Þar komu þeir fram sem fulltrúar Menntaskólans á Tröllaskaga.
Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir eru synir Önnu Huldu Júlíusdóttur og Þorvaldar Ingimundarsonar.
Hörður Ingi Kristjárnsson er sonur Hugborgar Harðardóttur og Kristjáns Sturlaugssonar.
Mikael Sigurðsson er sonur Sigurðar Ægissonar sóknarprests á Siglufirði og Arnheiðar Jónsdóttur.
Söngkeppni framhaldsskólanna var haldin var í vöruhúsi Exton án áhorfenda. Þeir fluttu þar lagið I’m Gonna Find Another You eftir John Mayer. Sigurvegararnir fá allir heimboð í Eurovision bæinn Húsavík í boði Húsavík Cape Hotel og Geosea sjóbaðanna.
Það er óhætt að segja að íbúar á Tröllaskaga og þá sér í lagi Siglfirðingar séu að rifna úr stolti yfir sínum mönnum eins og sjá má á samfélagsmiðlum.
Strákarnir hafa verið áberandi í tónlistalífi Fjallabyggðar undanfarin ár og má geta þess að Júlíus og Tryggvi héldu lengi vel úti þættinum “Þorvaldssynir” í útvarpi Trölla og eru þeir aðgengilegir á vefsíðu Trölla þegar farið er inn á slóðina FM Trölli.
Trölli.is óskar strákunum innilega til hamingju með þennan verðskuldaða sigur.
Skjáskot/RUV