Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur úthlutað styrkjum til einkarekinna, staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins. Markmið með styrkveitingunum er að efla starfsemi staðbundinna fjölmiðla á landsbyggðinni, enda gegna þeir mikilvægu hlutverki við að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um menningar- og samfélagsmál og styðja með þeim hætti við lýðræðisþátttöku og menningarstarf.

Fjárveitingar til verkefnisins árið 2023 eru annars vegar framlag menningar- og viðskiptaráðuneytis, 5 m. kr. og hins vegar fjárveitingar á fjárlögum til verkefnis C.07 í byggðaáætlun, 2,5 m. kr., alls 7,5 m. kr. sem skiptast í jöfnum hlutföllum milli umsækjenda.

Alls bárust umsóknir frá sjö útgáfufélögum fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins sem allar uppfylltu skilyrði fyrir úthlutun og hlaut hver umsækjandi 1.071.429 kr. í sinn hlut. Til samanburðar var styrkjum úthlutað til níu útgáfufélaga staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins árin 2022 og 2021.

Úthlutun styrkja til staðbundinna fjölmiðla á landsbyggðinni 2023:

1. Akureyri.net, útgefandi Eigin herra ehf.
2. Eyjafréttir og Eyjafrettir.is, útgefandi Eyjasýn ehf.
3. Eyjar.net, útgefandi ET miðlar ehf.
4. Skessuhorn og Skessuhorn.is, útgefandi Skessuhorn ehf.
5. Bæjarblaðið Jökull, útgefandi Steinprent ehf.
6. Austurglugginn og Austurfrétt.is, útgefandi Útgáfufélag Austurlands ehf.
7. Víkurfréttir og Víkurfréttir.is, útgefandi Víkurfréttir ehf.

Mynd/Golli