Botninn

  • 1 bolli hveiti
  • 115 gr ósaltað kallt smjör
  • 1/4 tsk salt
  • 1/4 bolli kakó
  • 1/4 bolli sykur
  • 1/4 bolli vatn

Skerið smjörið í litla teninga og setjið í skál ásamt hveiti, salti, kakaói og sykri. Hnoðið saman í mulning og bætið þá vatninu við í smáum skömmtum. Notið bara eins mikið af vatni og þarf til að deigið haldist saman. Fletjið deigið út og leggði í bökuform (mitt form er 22 cm).  Þrýstið deiginu vel í botninn og upp á kantinn og leggið síðan álpappír yfir (þrýstið honum að deiginu). Setjið deigið í ískápinn í 10 mínútur eða á meðan þið hitið ofninn í 175°.  Til að deigið lyfti sér ekki í ofninum er gott að leggja baunir eða hrísgrjón ofan á álpappírinn. Bakið í 20 mínútur, takið þá álpappírinn af (og baunirnar eða grjónin) og bakið áfram í 10-15 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna alveg.

Vanillu- og súkkulaðikrem

  • 3/4 bolli sykur
  • 1/3 bolli hveiti
  • 1/4 tsk salt
  • 2 bollar nýmjólk
  • 3 eggjarauður
  • 1 msk ósaltað smjör
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1/4 bolli suðusúkkulaði, saxað

Blandið saman sykri, hveiti, salti og 1 bolla af nýmjólkinni í potti. Hrærið vel saman og látið suðuna koma upp yfir miðlungs hita. Hrærið stöðugt þar til blandan verður slétt og þykk, það tekur um 2 mínútur, og takið þá pottinn af hitanum og látið kólna aðeins.

Hrærið saman eggjarauðum og 1 bolla af nýmjólk í skál. Bætið þykkri mjólkurblöndunni úr pottinum saman við í 4 skömmtum og hrærið vel á milli. Setjið blönduna aftur í pottinn og látið suðuna koma aftur upp. Hrærið stöðugt í pottinum. Þegar suðan kemur upp er hitinn lækkaður og látið sjóða í ca 1 mínútur eða þar til blandan minnir á þykkan búðing. Takið pottinn af hitanum og hrærið strax smjöri og vanillusykri saman við. Setjið helminginn af blöndunni í skál og leggið til hliðar. Bætið söxuðu suðusúkkulaði saman við þann helming sem eftir er í pottinum og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað og blandan orðin slétt. Látið báðar fyllingarnar kólna aðeins.

Ofanálag og samsetning

  • 2 bananar, skornir í sneiðar
  • 1 bolli rjómi
  • 3 msk sykur
  • 1/2 tsk vanillusykur

Breiðið vanillufyllingunni yfir bökubotninn. Raðið einu lagi af niðurskornum banönum yfir og breiðið súkkulaðifyllingunni yfir bananana. Setjið í ísskáp og leyfið að kólna alveg. Rétt áður en bakan er borin fram er rjóminn léttþeyttur, sykri og vanillusykri bætt út í og þeytt áfram þar til rjóminn er tilbúinn. Alls ekki þeyta hann of mikið. Breiðið rjómann yfir bökuna og skreytið með dökku súkkulaði.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit