Súkkulaðipavlova með mascarponerjómakremi, Maltesers, Daim, ristuðum pekanhnetum og súkkulaðisósu (uppskrift frá Lindu Lomelino)
Súkkulaðimarensbotnar:
- 50 g dökkt súkkulaði (70%)
- 6 stórar eggjahvítur
- 3 dl sykur
- 3 msk kakó
- 1 msk maizena mjöl
- 1 tsk hvítvínsedik
Mascarponekrem:
- 250 g mascarpone ostur
- 2-3 msk sykur
- 5 dl rjómi
- 2 msk espresso
Fylling:
- Maltesers
- Daimkúlur
- Ristaðar pekanhnetur (ristaðar í 175° heitum ofni í 5 mínútur)
Súkkulaðisósa:
- 3/4 dl sykur
- 1 dl sterkt kaffi
- 3 msk kak
Súkkulaðimarensbotnar
Brjótið súkkulaðið í bita og bræðið það varlega yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið kólna.
Hitið ofninn í 175°. Teiknið tvo eða þrjá hringi sem eru um 15 cm í þvermál á bökunarpappír. Staðsetjið þá eins langt frá hvor öðrum og mögulegt er. Snúið bökunarpappírnum við og leggið hann á ofnplötu.
Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja að mynda froðu og bætið þá sykrinum smátt og smátt saman við. Þeytið áfram þar til blandan er orðin stífþeytt. Það á að vera hægt að halda skálinni á hvolfi án þess að marensdeigið renni úr henni. Sigtið kakó og maizenamjöl út í deigið, bætið hvítvínsediki saman við og blandið öllu vel saman. Hrærið að lokum bræddu súkkulaðinu gróflega í marensdeigið.
Skiptið marensdeiginu jafnt á hringina á bökunarpappírnum. Botnarnir eiga eftir að renna aðeins út þegar þeir bakast. Setjið marensinn í ofninn og lækkið hitann í 125°. Bakið marensinn í 60-75 mínútur. Botnarnir eiga að vera harðir og stökkir við kantana en seigir í miðjunni. Slökkvið á ofninum en látið botnana vera áfram á eftirhitanum í honum, með ofnhurðina hálfopna þar til ofninn er orðinn kaldur.
Mascarponekrem:
Hrærið mascarponeostinn og sykurinn saman þar til blandan verður mjúk og kremkennd. Bætið rjómanum saman við og þeytið þar til blandan þykknar. Bætið espresso saman við og þeytið áfram þar til það hefur blandast saman við kremið.
Súkkulaðisósa:
Blandið öllu saman í pott og látið suðuna koma upp. Sjóðið í 3-5 mínútur eða þar til sósan hefur tekið að þykkna aðeins. Látið kólna.
Setja kökuna saman:
Leggið fyrsta botninn varlega á kökudisk og smyrjið helmingnum af mascarponekreminu yfir. Stráið grófhökkuðu maltesers, daimkúlum og ristuðum pekanhnetum yfir. Leggið seinni botninn yfir og smyrjið því sem eftir er af mascarponekreminu yfir. Skreytið með maltesers, daimkúlum, pekanhnetum og súkkulaðisósu. Látið tertuna gjarnan standa í ísskáp í að minnsta kosti klukkutíma áður en hún er borin fram.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit