Þrátt fyrir að enn sé heldur vetrarlegt um að litast í Hlíðarfjalli þá er nú þegar farið að huga að sumaropnun fyrir útivistarfólk í Fjallinu.
Vonir standa til að júní verði hlýr og góður svo að svæðið verði komið í þokkalegan sumarbúning í byrjun júlí.
Áætlað er að sumaropnun verði frá fimmtudeginum 11. júlí til sunnudagsins 8. september og ef aðstæður leyfa verður að sjálfsögðu reynt að opna fyrr. Á tímabilinu verður hægt að nýta lyfturnar til að stytta sér leið upp hlíðar fjallsins hvort sem það er til að njóta hjólagarðsins eða til að ganga upp á brún og njóta útsýnisins. Hægt er að flytja reiðhjól með lyftunni.
Fjarkinn mun ganga á fimmtudögum og föstudögum frá kl. 17-21, á laugardögum frá kl. 10-17 og sunnudögum frá kl. 10-16. Stefnt er að því að Fjallkonan verði opin frá 27. júlí til 25. ágúst, samtals fimm helgar á laugardögum og sunnudögum frá kl. 10-15.