Sunnudaginn 10. okt. kl 14.00 opnar J Pasila sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina Ókunnugur.

Sýningin er opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00 til 24. okt.

Þann sama dag kl. 15.30 verður Lydia Athanasopoulos með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki um rebetika sönghefð Grikklands, ath. erindið er á ensku.

J Pasila segir um verkin á sýningunni Ókunnugur:
Síðustu 18 mánuði hef ég varið tíma mínum í Zoom og FaceTime símtöl í leit að einhvers konar samveru – líkt og vinir mínir og kunningjar. Stundum hægði á sambandinu eða nettengingin hökti. Skjámyndin fraus og varð þokukennd, eins og óljós vatnslitamynd. Ég fór að taka myndir af þessum augnablikum –tilgangslitlar tilraunir til að halda í tengingu sem var þá þegar næstum horfin, varla til staðar lengur.

Andlitsmyndirnar bera með sér súrrealískan og í senn kvíðavænlegan blæ.

Í stað þess að hinar stafrænu “samkomur” með ástvinum færðu mér félagsskap og samkennd juku þær á vanlíðan mína og einsemd.

Litirnir eru dempaðir; þokugráir og bleik- og blámóskulegir. Sums staðar birtast andlitin út úr dökkum bakgrunni.

Ég prentaði upphaflega þessar myndir af vinum og fjölskyldufólki á þunnan ljósritunarpappír sem er jafn léttur og hverfull og innihald myndanna og fellur vel að dulúð þeirra. Stærðirnar eru 20×20 sm og 90×117 sm.

Samhliða má sjá myndaröð sem sýnir pixluð rýmin sem stóðu auð þegar fólk stóð upp og færði sig út úr myndrammanum.

Sófapúðar, bókahillur og gluggatjöld birtast sem leiktjald á sviði sem bíður þess að einhver stígi á stokk.

Ferill
J Pasila hefur sýnt verk sín bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Í New York hafa sýningar hennar meðal annars farið fram í Plane Space Gallery, Momenta, og The Carriage Trade Gallery.

Í Evrópu hefur hún sett upp sýningar í Apollohuis í Eindhoven Hollandi, Waterfront Gallery í Gent í Belgíu og á Siglufirði.

Verk hennar voru valin af Robert Storr fyrir 44. National Chatauqa sýninguna á amerískri list. Þá hefur hún tekið þátt í sýningu “dust” ljósmyndasafnsins í Pompidou safninu í París frá október 2020 til mars 2021. Þá hefur J hlotið styrki og verðlaun frá Elizabeth Foundation, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Mustarinda félaginu í Finnlandi – og tvisvar dvalið í McDowell Colony, NH.

J Pasila útskrifaðist frá Ontario College of Art í Toronto. Hélt áfram námi í vídeolistadeild og arkitektúr við Listaháskólann í Dusseldorf.

Á námsárum sínum í Þýskalandi stundaði hún rannsóknar- og þróunarvinnu með OMA, Christopher Alexander og CRATerre fyrir skapandi heimildarmyndina A sense of place.

J dvelur ýmist í Brooklyn, New York, eða á Siglufirði.

Sunnudaginn 10. október kl. 15.30 verður fyrirlestur um rebetika sönghefð Grikklands. Erindið er hluti af fyrirlestraröð sem nefnist Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Lydia Athanasopoulou, tónlistarblaðakona og þáttagerðakona fyrir útvarp, fer með okkur í ferðalag aftur í tíma að upphafi 20. aldar, og í hafnir Smyrna og Piraeus.

Við munum heimsækja leynilega klúbba og reykkompur í fylgd ljósmynda, myndbanda og rispaðra fónógraf tóna, uppgötva rebétes, mághes og mórtisses.

Við munum heyra þau syngja um ást, missi og undirheima, horfa á þau dansa sorgirnar af sér, og komast að því hvernig reykvafin tónlistar-undirmenning skilgreindi heilaþjóð.