Í gær birtist frétt hér á trolli.is um fuglalíf og dúntekju á Siglufirði, með fyrirsögninni HLJÓMAR NOKKUÐ UNDARLEGA AÐ BÆJARRÁÐ ÆTLI SÉR “AÐ BJÓÐA ÚT ALLA DÚNTEKJU”.
Þar er einnig bréf sem Örlygur Kristfinnsson sendi Fjallabyggð um málið. Örlygur minntist á Fljótamann sem hefur óskað eftir að taka dún og sjá um varpið við Steypustöðina á Siglufirði. Fljótamaðurinn – Árni Rúnar Örvarsson – hafði samband við Trölla og óskaði eftir að fá birt svarbréf það sem hér fer á eftir.
Ástæða þess að undirritaður sendi Bæjarráði erindi vegna dúntekju innan Fjallabyggðar er sú að enginn æðardúnn var tekinn í æðarvarpinu á Leirutanga árið 2019. Ef æðardúnn er látinn liggja í hreiðri í lengri tíma skemmist hann en einnig skemmir ótekinn dúnn fyrir dúntekju næsta árs þar sem hann blandast við dúninn að ári. Þarna var illa farið með verðmæti í eigu Fjallabyggðar. Þau svör sem undirritaður fékk frá Bæjarráði vegna fyrirspurnar sinnar voru þau að Ólafur Guðmundsson sæi um dúntekju á Leirutanga og hefði gert í áraraðir. Ég átti samtal við Ólaf sem sagðist ætla að taka dúninn í ár, vorið 2020, en bauð ég fram aðstoð mína við varpið, sem hann ætlaði að íhuga. Undirritaður fór í eitt skipti og skaut veiðibjöllu í varpinu að Leirutanga þann 15. maí sl.
Þegar kom loks að dúntekju hafði ég samband við Ólaf sem sagðist ekki ætla að taka dún en hefði falið Örlygi Kristfinnssyni að taka dúninn. Það nafn hafði hvergi komið fram, hvorki hjá Bæjarráði né hjá öðrum innan Bæjarskrifstofu Fjallabyggðar og voru starfsmenn hennar hissa er þeir fréttu af málinu þar sem varplandið er eign Fjallabyggðar og því fráleitt að eignir bæjarins séu réttar næsta aðila án samráðs við Bæjarráð. Þess má einnig geta að Fjallabyggð hefur aldrei fengið krónu fyrir sinn skerf og því er fjárhagslegur hagnaður Fjallabyggðar af núverandi samkomulagi enginn.
Í úrskurði Bæjarráðs segir, “Bæjarráð samþykkir að bjóða út alla dúntekju í landi Fjallabyggðar og að samningur verði gerður við aðila um að girða svæði af, halda vargi frá varplandi og annast umhirðu varpsvæðis.”
Hvergi er hægt að lesa úr þessum texta að “aðilar muni hirða dúninn og afla sér tekna á auðveldan hátt” eins og Örlygur segir í bréfi sínu. Þarna er talað um að gera samning við aðila um að girða svæðið af, halda vargi frá og annast alla umhirðu.
Mín sjón er að allir sem eiga í hlut hagnist á þessari tekjulind Fjallabyggðar, þ.á.m. bærinn sjálfur og íbúar Fjallabyggðar en einnig að betur verði hlúð að varpinu með uppsetningu girðingar. Undirritaður er æðarbóndi Að Hraunum í Fljótum, þar sem framúrskarandi aðstaða er til dúnþurrkunnar og dúnvinnslu, sem stendur til að bæta enn frekar á þessu ári með byggingu nýs dúnhúss, útbúið fullkomnustu tækni sem völ er á. Einnig má þess geta að á Hraunum er þrefalt stærra æðarvarp en á Leirutanga og hefur dúntekja verið stunduð á Hraunum frá því árið 1860. Undirritaður er einnig frumkvöðull á sviði nýtingar æðardúns og sölu hans til nýrra markaða sem aldrei hafa verið kannaðir áður. Þessi frumkvöðlastarfsemi hefur skilað sér í 32% verðmætaaukningu dúnsins sem kemur frá Hraunum og fer sú tala aðeins hækkandi. Því þykir undirrituðum orðið “dúntekjumaður” vera miður orðum ofaukið og að dúnninn verði aðeins hirtur og varplandið látið sæta afgangi er afleit staðhæfing sem á sér enga fótfestu. Þess má einnig geta að undirritaður er Siglfirðingur í annan legg sem hefur búið, starfað og leikið knattspyrnu á Siglufirði og því varla ókunnur aðkomumaður.
Með þökk og vinsemd,
Árni Rúnar Örvarsson.