Bréf frá fermingarbörnum 1947.
Hafnarfirði 27. ágúst 2019
Kæru Siglfirðingar!
Kveðja frá fermingarbörnum 1947.
Við nokkrar vinkonur úr þessum hópi, ætluðum að skoða hringsjána sem við gáfum til bæjarins okkar árið 1988. Það var erfitt, engar merkingar, ekkert sem segir að þarna sé hringsjá. Við blotnuðum í fæturnar við að reyna að vaða yfir skurð sem er flugstöðvarmegin við Álfhól. Þarna hittum við svissnesk hjón sem höfðu frétt af þessari hringsjá og langaði til að sjá hana.
Þau komust við illan leik að henni blaut í fætur. Þeim fannst gaman að sjá hvað fjöllin heita og dáðust að framtakinu í að setja upp hringsjá þarna.
Okkur sem stóðum að þessari framkvæmd 1988 finnst þessari gjöf sýnd lítil virðing, að engar merkingar séu og aðgengi ekkert.
Okkur var lofað því af bæjarstjóra, að viss fjárveiting fyrir árið 2018 ætti að fara til verksins. Framkvæmdum var síðan frestað til ársins 2019, og enn bólar ekki á neinu. Þykir okkur þessu framtaki okkar lítill sómi sýndur og hvarflar að okkur hvort verkefnið gæti höfðað til einhverra félagasamtaka í bænum ef bæjaryfirvöld hafi ekki burði til verksins. Okkur langar að komast þurrum fótum að hringsjánni næst þegar við komum enda komnar á níræðisaldur.
Með góðum kveðjum og von um farsæl málalok.
Steinunn Friðriksdóttir
Erla Þórðardóttir
Viktoría Særún Gestsdóttir
Aðsent