Út er komin bókin Hákarla-Jörundur. Ævisaga Jörundar Jónssonar hákarlaformanns og útvegsbónda í Hrísey.

Höfundur er Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðingur, sem fæddist og ólst upp í Ólafsfirði, en Skrudda gefur bókina út.

Jörundur Jónsson fór sem fátækur unglingur að heiman frá Kleifum í Ólafsfirði árið 1843 eftir að móðir hans dó af barnsförum nokkru áður. Um árabil var hann smali og vinnumaður á ýmsum bæjum á austurströnd Eyjafjarðar þar sem honum tókst að lokum að brjótast úr hlekkjum fátæktar og vinnumennsku og verða sjálfstæður útvegsbóndi. Hann efnaðist og árið 1862 settist hann að á Syðstabæ í Hrísey með fjölskyldu sinni. Þar hélt velgengni hans áfram og Jörundur gat sér orð fyrir að vera einn fengsælasti hákarlaveiðimaður landsins, áræðinn og farsæll skipstjóri. Viðurnefni hans, Hákarla-Jörundur, segir meira en mörg orð. Þeir sem á annað borð þekkja til Jörundar kannast fyrst og fremst við hann sem útgerðarmann. Færri vita að á árunum 1865 til 1888 rak hann eitt af stærstu sauðfjárbúum í Eyjafirði. Af rekstri sínum til sjós og lands komst hann í hóp efnuðustu manna í landinu um sína daga en hann lést árið 1888, þá rétt að verða 62 ára.

Jörundur eignaðist 17 börn með konum sínum, Svanhildi Jónasdóttur og Margréti Guðmundsdóttur. Af þeim komust 10 til fullorðinsára og afkomendur hans eru fjölmargir, margt þjóðþekkt fólk.

Um daga Jörundar varð atvinnulífsbylting á Eyjafjarðarsvæðinu í kjölfar fjármagnsmyndunar vegna stóraukinnar framleiðslu hákarlalýsis til sölu á erlendum mörkuðum og sauðasölu til Bretlands. Breytingarnar komu samfélaginu úr kyrrstöðu sjálfsþurftarbúskapar í átt til hagvaxtar og markaðsbúskapar. Greint er frá mikilvægum þætti Hákarla-Jörundar í þessum umskiptum í bókinni. Fjöldi ljósmynda, teikninga og korta styðja frásögnina og auka á gildi ritsins.