Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stefna að því að eigi síðar en15. júní næstkomandi geti þeir sem koma til landsins farið í COVID-19 próf á Keflavíkurflugvelli.
Reynist það neikvætt þurfi þeir ekki að fara í 2ja vikna sóttkví. Þá er gert ráð fyrir að nýleg vottorð um sýnatöku erlendis verði einnig tekin til greina meti sóttvarnalæknir þau áreiðanleg. Þessi tímasetning er með fyrirvara um að áætlanir um afléttingu takmarkana innanlands gangi eftir og með hliðsjón af þróun faraldursins hérlendis og erlendis.
Fyrirhugað er að veirufræðideild Landspítala annist sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og greiningu. Niðurstaða á að geta legið fyrir samdægurs og er gert ráð fyrir að farþegar geti farið til síns heima eða á gististað uns hún liggur fyrir.
Fyrirkomulagið verður endurmetið þegar tveggja vikna reynsla er komin á það, m.a. út frá því hvort herða þurfi aftur aðgerðir eða hvort frekari tilslakanir séu forsvaranlegar. Ef skimun á Keflavíkurflugvelli reynist vel þarf einnig að huga að fyrirkomulagi á öðrum landamærastöðvum.
„Það er ánægjulegt að geta stigið þessi skref í átt að opnun landsins. Okkar daglega líf færist nú örlítið nær því sem við vorum áður vön. Við verðum að fara varlega, gæta að sóttvörnum og fara í einu og öllu að tilmælum um sóttvarnir. Þannig drögum við úr líkum á bakslagi og færumst áfram í rétta átt, hægt en örugglega“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Skýrsla stýrihóps um afléttingu ferðatakmarkana.
Minnisblað sóttvarnalæknis með tillögu að breyttum sóttvarnareglum eftir 15. maí
Nánar um áformaðar breytingar 15. júní