Að venju verður sýning á verkum nemenda við Menntaskólann á Tröllaskaga í lok annarinnar og verður blásið til nýrrar sóknar í þeim efnum eftir nokkur róleg ár vegna áhrifa Covid faraldursins.

Sýningin verður haldin föstudaginn 8. desember og stendur frá kl. 16.00 – 21.00. Milli 16.00 og 18.00 verða skemmtilegar vinnustofur og jólaföndur fyrir börn auk þess sem veitingar verða í boði.

Á sýningunni má sjá fjölbreytt verk jafnt staðnema sem fjarnema; ljósmyndir og málverk nemanda af listabraut sem og skapandi verkefni nemanda af öðrum brautum.

Einkunnarorð skólans: Frumkvæði – Sköpun – Áræði hafa verið í hávegum höfð við vinnu þessara verkefna og valin verkefni verða einnig til sýnis á heimasíðu skólans.

Athygli er vakin á því að sama dag og sýningin er haldin er Jólakvöldið í Ólafsfirði og því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi og njóta alls þess sem í boði verður á Ólafsfirði þennan dag.

Mynd /Gísli Kristinsson