Sjaldan eða aldrei hef ég þakkað fyrir að það að fá einn á kjaftinn, en honum Hallgrími okkar Helgasyni tókst að gefa mér enn og aftur einn “go morron hnefa,” beint í andlitið og í minn Sænsk/Siglfirska leshaus.

Því ég lá sem rotaður í tvo sólahringa í stofusófanum og las 60 kíló af kjaftshöggum í einni lotu. Gat bara ekki hætt að lesa þessa stórkostlegu Segulfjarðarsögu sem byrjaði með álíka mörgum sólskinskílóum rétt fyrir jólin í fyrra.

Að lestri loknum stóð ég upp hálfvankaður, með les glóðarauga á báðum og sagði upphátt við sjálfan mig:

Guð minn almáttugur!
Hvernig á þetta allt saman að enda?
Samtímis fékk ég angist, yfir einmitt þeirri tilhugsun…
… að þessi makalausa saga muni taka enda, en líklega og vonandi eru enn eftir minnst ein svona góð jólabókajól.

Sjá meira hér um fyrri bókina, en um hana sagði ég meðal annars í fyrra:

“Í upphafi var hákarl og síðan kom síld… gerist ekki betra…”

Siglfirsk þakklætiskveðja frá Útlandinu

… og hún kom svo sannarlega af fullum krafti inní Íslandssöguna.

Því í ört vaxandi Segulbæinn er nú mættur nýr, til sýnis mjög svo áráðalegur kvenkynsguð og hún heitir einfaldlega SÍLD og hún er yfir það hafin að vera kallaður fiskur.

Hún er drottning hafsins og þrátt fyrir að henni fylgi slor, fnykur og hræðileg saltsár á höndum, þá finnst mörgum að Jesús eigi svo sem ekkert að vera að kvarta eða loforða líf eftir dauðan. Hann fékk jú bara smánagla í lúkurnar.

En síldin hefur sýnt það og sannað, að ef þú trúir á hana, þá áttu möguleika á því að LIFA smástund… áður en þú drepst.

Í þessum 60 stórkostlegum kílóum af kjaftshöggunum, verðum við að geta lesið sjálf úr því, hvað eftirfarandi frægu Norsku orð þýða í rauninni inní manneskjusálum og í daglegu lífi fátækra og ríkra, heima í Segulfirðinum góða… fyrir sumum slæma:

Tja… det kjem an på silda!
(Nú… það veltur á síldinni)

Reyndar byrjaði þessi kjaftshögga lestur ekki vel, því pósthelv… og ósýnilegir býrokratar og ótrúlega leiðinlega kurteisir algórytma- róbótar kröfðu mig um toll af þessari yndislegu jólagjöf sem bróðir minn elskulegi hafði pakkað inn í jólapappír og alles og sett í póst með ærnum tilkostnaði. Ég var reyndar búinn að segja honum að spara jólapappírinn í annað, ég myndi auðvitað ekki geta stillt mig með að bíða fram á aðfangadag með að opna þennan harða jólabókapakka.

En á meðan ég beið eftir pakkanum, gaf ég persónulega og skriflega, kjaftshögg til vinstri og hægri á ríkisreknar sænskar stofnanir, var að hugsa um að skrifa Evrópusambandinu kjaftshöggabréf líka, nennti því ekki og gafst upp og beið bara óþolinmóður… eftir fleirum óvæntum kjaftshöggum, sár og reiður eins og aðalpersónan Gestur Eilífsson sem núna heitir Elison í bókinni sem kostaði mig 115 Skr. að fá til mín sem jólagjöf.

Það erfiða við að eiga ósýnilega óvini er að maður veit ekki hvern maður á að slá á kjaftinn, stundum er hreinlega lífið sjálft þessi ósýnilegi andstæðingur. Gestur söguvinur minn myndi örugglega vera mér sammála í þessu og einnig í að stundum er maður hreinlega bara ósjálfbjarga fórnarlamb og ókunnuglegur GESTUR í sínu eigin lífi.

“Sagan Hallgríms” (Siglfirskt málfar) tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið í fyrra og sumum gæti fundist það erfitt að komast aftur inn í þessa miklu Gestsættarsögu.

En lesendur góðir, hafið engar áhyggjur!

Því hann Hallgrímur er svo elskulegur höfundur, hann klífur hreinlega sjálfur inn í sína eigin skáldsögu eins og að hann sé túrhesta leiðsögumaður í sumarvinnu á plani hjá Síldarminjasafni Íslands og minnir okkur á ýmsa fyrri atburði og lætur okkur meira að segja fá kort af sögusviðinu.

Sem er (Hv)Fann-EYRIN og nánasta umhverfi hennar.

SEGLÓ 1918.

VIÐ SÖLTUM OG SKRIFUM OKKUR HÉR MEÐ ÚR FÁTÆKT, LÁGKÚRULEGRI ÞRÆLAHUGSUN OG ÁNAUÐ FYRRI KYNSLÓÐA OG ALDA…

og út úr moldarmygluhúsum líka og við færum okkur loksins yfir í bárujárnsklædd timburilmandi mannsæmandi hús…

… gæti þessi saga allt eins heitið.

Örlög hins fátæka á Íslandi var og er enn, að verða aftur og aftur fyrir miklum vonbrigðum við að spássera í lífsgöngunni sinni á götum sem voru ekki til á Roklanda-eyrinni. Þegar þær vel koma, þá var það alltaf einhver annar sem skipulagði og teiknaði beinar breiðgötulínur sem leiddu AÐRA en mann sjálfan til bæði Guðs og frægðar og frama.

Því að þrátt fyrir góða möguleika á því að finna loksins betra líf, bak við eitthvert húshorn niðrá Eyrinni á Segulfirði, þá bíða þar aðalpersónunni Gests, oftar en ekki fleiri lífskjaftshögg, drullupollar og síldarslor, frekar en gull og grænir skógar.

Mótlætið er stundum algjört, sumar sögupersónur eru alveg við það að fara YFRUM (fjörð) úr taugaæsingi.
Því það má ekki einu sinni út af gamalli rammÍslenskri forneskju-hefð og hugsun, selja góðhjörtuðum gróðasinnuðum Norðmönnum, einskis virði SNJÓFLÓÐALAND.

Hvað þá leggja rit-eða símalínu í þennan andskotans síldarslorfjörð, því það myndi bara lokka til sín fleiri vitleysinga frá öllum landshornum… og útlandinu líka.

Ó Nei, “Fuss og svei” hefði amma Nunna bætt við til áherzluauka.

Hallgrímur er heldur ekkert að skafa af því, þegar kemur að lýsingum af því hvaðan okkar einangraða-eyjaskegga-þvermóðsku- hugsunarháttur kemur, gefur jafnvel í skyn í sögubroti um skipsstand á skipi sem ber frægt Norskt konungsnafn frá 13ánduöld útá Segulnesi að þarna hefði loksins rekið í land, síðbúin hefnd okkar Íslendinga fyrir óréttlætis aldir sem byrjuðu 1262.

Ó já. Við erum langrækin þjóð og gleymum engu, þátíða landar okkar rifu sig úr skinnbrókunum og skrifuðu sögur á brækurnar svo að þetta óréttlæti myndi nú örugglega ekki gleymast.

Hefndin er ljúf og fjör-ug, fleiri hundruð árum seinna… í fjörunni útá Segulnesi.

Það er líka augljóst að ungviður Fanneyrarinnar trúir ekki lengur á álfa, tröll eða örlagatrú fortíðarinnar, reynsla og kunnátta fyrri kynslóða er nú einskins virði.

FLEIRIHUNDRUÐ KÍLO AF ÖRSÖGUM…

… sem lýsa vel tíðarandanum og sálrænni líðan þeirra sem segja sína og annarra sögu, sem og allskyns Helgasonarnýyrði, bíða lesandans á annarri hverri síðu í þessari dásamlegu 544 bls. bók.
Þetta er frásagnarstíll meistara Hallgríms og persónulega finnst mér þessi stíll vera mikið augnakonfekt að lesa. Öðrum gæti fundist þetta á köflum erfitt, en ég sem hef lesið það mesta sem stórskáldið hefur skrifað og skráð, hef tekið eftir því að í lestrarbyrjun þarf ég oft að stoppa á rauðu ljósi og lesa sumt aftur.

En svo vaggar textinn mér ósjálfrátt inní Segulfjarðar “kæjaka” róðrartúra í lygnum sjó og með jöfnu millibili lendi ég í rosalegum orðastormi og óvæntum ævintýrum og þá kemst ég ekki einu sinni í land til þess að pissa, því maður getur ekki bara staðið upp og pissað standandi í svona ótrúlega sálar-völtum lestrarkæjakatúr, eins og hver annar Lassaróni útá götu á Fanneyrinni frægu.

Það er einnig augljóst öllum sem lesa þetta stórvirki, að Hallgrímur Helgason hefur svo sannarlega gert sínar heimalexíu vel og lengi, hann er vel að sér í öllum staðháttum og sögum sem tengjast þessari SKÁLDSÖGU sem með hans undursamlega frásagnarstíl verður SÖNN SAGA í huga lesandans.

Hallgrímur þorir, líkt og aðrir stórir rithöfundar, að vera bæði Guð almáttugur og Djöfullinn sjálfur í sömu persónu og aumingja Gestur og aðrir í sögunni, jafnt ríkir sem fátækir, fá svo sannarlega að finna fyrir því.

Það hálfa væri nóg…
… myndu sumir vilja segja, en staðreyndin er að akkúrat þessi saga krefst 60 KÍLÓ AF KJAFTSHÖGGUM.

Sagan gerist á þannig tíma og í þannig firði. Að einhver komist óbarinn frá sinni óóskuðu meðfæddu, áþvinguðu fátækt og eymdarörlögum er ekki trúverðugt án kjaftshögga.

Lífið Ehf. virðist oft skammta okkur “Ást og Unað” úr litlum teskeiðum, en “Sorgir, Svik og Prettir” koma úr stórum skúringarfötum.
Engin kemst lifandi eða ósnortinn frá þessum staðreyndum lífsins. Sérstaklega ekki þeir, sem hafa það sem atvinnu að bera þessa andskotans fátæktar skúringafötu.

Blessaður sögumaðurinn hann Hallgrímur, hlýtur að hafa haft sögufæðingarhríðir í fleiri ár.
“Ég geng með þríbura,” sagði höfundurinn opinberlega fyrir nokkrum árum, en persónulega er ég, sem og allir Siglfirðingar nær og fjær að vonast eftir miklu fleiri fæðingum…

… en, “Tja… det kjem an på silda!

Þessi Norsku orð og þeirra einlæga margræða meining, höfðu mikil áhrif á líf og framtíð heillar þjóðar.
Mölbúa, sem kúrðu í eimd, volæði og vonleysi í Danskri nýlendu, en einn fagur fjörður var endurlandnámsnuminn af Norðmönnum og það sem þeir komu með sér í ferðatöskunum í þetta skiptið, skapaði SEGULFJÖRÐ.

Fjörðinn með stóru F-i, sem er og verður alltaf NAFLI ALHEIMSINS.

Til gamans má geta að setningin “Det går an på silla” eru auðvitað þekkt í Svíalandi líka, en orðin Det går an… ??? koma reyndar frá frægum bókartitli frá 1839 með á sínum tíma umdeildum orðum og skoðunum frá Carl Jonas Love Almqvist um fáránleikann í því að hið heilaga hjónaband karls og konu væri líflöng ánauð fyrir konur og svipti þær í rauninni fjárhagslegu sjálfstæði.
Einnig er í þessum skrifum, mótmælt þeirra tíma kerfisbundnu einokrun (Skråväsen) sem gilti um suma karlmanna atvinnutitla.

Gleðileg bókajól og takk Hallgrímur, enn og aftur, fyrir að gefa mér einn á kjaftinn, ég þurfti virkilega á því að halda að einhver heila-hristi mig rækilega inní staðreyndir um lífið og tilveruna með góðri sögu.

Sögu sem minnir mig á, hvaðan ég sjálfur og allt mitt skyldfólk í báðar ættir kemur, annars er þetta reyndar sagan okkar ALLRA líka.

Höfundur, ljósmyndari og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Aðrar sögur, greinar og fleira eftir sama höfund á trölli.is, sjá yfirlit hér:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON