Kynjasjónarmið á flestum þeim málefnasviðum sem fjármálaáætlun tekur til hafa verið kortlögð í stöðuskýrslu sem kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku.
Á fundinum var samþykkt að nýta niðurstöður skýrslunnar við stefnumótun og að tekið yrði tillit til kynja- og jafnréttissjónarmiða við ákvarðanatöku. Einnig var samþykkt að taka saman heildstætt yfirlit yfir áhrif COVID-19 á kynin.
Stöðuskýrsla um kortlagningu kynjasjónarmiða er birt reglulega. Staðan sem dregin er fram í skýrslunni fyrir árið 2021 varpar ljósi á ójafna stöðu kynjanna á ýmsum sviðum hins opinbera og má sem dæmi nefna vinnumarkaðinn, heilbrigðis- og menntakerfið og tiltekna samkeppnissjóði.
Munurinn á heilsu karla og kvenna birtist til að mynda víða í heilbrigðiskerfinu. Konur lifa jafnan nokkuð lengur en karlar, en lifa hins vegar að meðaltali færri ár við góða heilsu, eru líklegri til að lifa við heilsubrest í daglegu lífi, nýta læknisþjónustu meira og fá ávísað meira af lyfjum.
Eftirfarandi myndir sýna dæmi um stöðu kynjanna á sviðum nýsköpunar og menntunar.
Ríkisstjórnin hefur sett jafnréttismál í forgang með nýrri og breyttri löggjöf og markvissum jafnréttisaðgerðum sem hafa þegar skilað árangri. Breytingar á verklagi í málum er varða heimilisofbeldi og kynferðisbrot hafa til að mynda leitt til þess að fleiri tilkynna brot til lögreglu nú en áður. Þá byggjast ákvarðanir í auknum mæli á upplýsingum um stöðu kynjanna.
Á fundi ríkisstjórnarinnar í dag var samþykkt að ráðherrar beiti sér fyrir því að niðurstöður skýrslunnar verði nýttar við stefnumótun og að tekið sé tillit til kynja- og jafnréttissjónarmiða við ákvarðanatöku.
Auk þess var samþykkt að tekið yrði saman heildstætt yfirlit yfir áhrif COVID-19 á kynin og þá sérstaklega konur og hvernig aðgerðir stjórnvalda hafa komið til móts við þarfir kynjanna. Samantektin myndi grunn að gerð leiðarvísis þar sem kortlögð eru kynja- og jafnréttissjónarmið sem hafa þarf í huga við ákvarðanir um afkomubætandi aðgerðir og viðbrögð við efnahagsþrengingum.
Stöðuskýrslan er unnin af öllum ráðuneytum undir forystu forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis í samræmi við fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019-2023. Gert er ráð fyrir að skýrslan nýtist jafnt við stefnumótun, frumvarpagerð og fjárlaga- og áætlanagerð og verði uppfærð að ári.
Helstu niðurstöður skýrslunnar
Kortlagning kynjasjónarmiða – Stöðuskýrsla 2021
Mynd: Golli
Skoða á vef Stjórnarráðsins