Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra hefur undirritað reglugerð um hækkun á tekjumörkum vegna hlutdeildarlána.

Hlutdeildarlán eru lán sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) veitir þeim sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð og þeim sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum með það að markmiði að brúa eiginfjárkröfu við íbúðarkaup fyrir þá sem þess þurfa.

Hlutdeildarlán getur almennt numið allt að 20% kaupverðs og eru tekjumörk umsækjenda um hlutdeildarlán þá eftirfarandi:

  • Hámarkstekjur einstaklings geta numið allt að 9.465.000 kr. miðað við sl. 12 mánuði.
  • Hámarkstekjur hjóna eða sambýlisfólks eru kr. 13.221.000 kr. miðað við sl. 12 mánuði.
  • Viðbót við þessi tekjumörk vegna hvers barns eða ungmennis sem er undir 20 ára aldri og er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu er 1.805.000 kr.

Þá er heimilt að veita allt að 30% hlutdeildarlán til einstaklinga með lægri tekjur en 6.283.000 kr. á ári eða til hjóna eða sambúðarfólks með samanlagt lægri tekjur en 8.789.000 kr. á ári miðað við síðastliðna 12 mánuði. Við þær tekjur bætast 1.953.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem er á framfæri umsækjanda eða býr á heimilinu.