Matvælastofnun sendi út fréttatilkynningu föstudaginn 20 september þess efnis að riðuveiki hefði greinst á bænum Brúnastöðum í Fljótum. Sjá eldri frétt, Garnaveiki staðfest á Tröllaskaga. Af því tilefni sendi Stefanía Hjördís Leifsdóttir bóndi á Brúnastöðum frá sér eftirfarandi tilkynningu.
“Af gefnu tilefni”.
“Í ljósi fréttaflutnings undanfarinna daga um að garnaveiki hafi verið staðfest í kind í hjörðinni okkar höfum við orðið vör við að fólk haldi að við þurfum að skera niður bústofninn, að bærinn sé í einhverskonar sóttkví og við getum ekki afsett vörurnar sem við framleiðum. Þetta er sem betur fer fjarri sannleikanum þó að því miður hafi þetta tilfelli vissulega afleiðingar fyrir líflambasölu frá bænum.
Fréttatilkynningin frá Mast, sem er vissulega skylt að tilkynna svona tilvik, fór á stað í fjölmiðla nánast um leið og okkur er tilkynnt formlega að þetta sé niðurstaðan. Það mætti líka skilja á tilkynningunni að um einhverskonar sóðaskap væri að ræða þar sem smitleiðir eru raktar. Hið rétta er að öll lömb eru bólusett fyrir þessum sjúkdómi á haustin af dýralækni. Hér á bæ hefur slíkt að sjálfsögðu aldrei farist fyrir.
Býlið hefur einnig fengið umhverfisverðlaun svo vonandi erum við ekki miklir sóðar. Það er nákvæmlega ekkert sem við hefðum getað gert til að koma í veg fyrir þetta eina tilfelli.
Á vef Mast kemur fram að bólusetning sé ekki alltaf trygging fyrir því að dýr verði ekki fyrir smiti, það hefur væntanlega gerst hér. Þetta er vissulega leiðinlegt, ekki síst fyrir Jóhannes bónda sem hefur lagt mikið í sitt helsta áhugamál og lífsstarf, að rækta gott sauðfé, að geta ekki selt hrúta á sæðingarstöð, sem alltaf er heiður fyrir góðan ræktanda. En verri hlutir hefðu vissulega getað hent.”
Myndir: Stefanía Hjördís Leifsdóttir