Á Þorláksmessu bauð Síldarkaffi á Siglufirði upp á veglegt hlaðborð þar sem kæsta skatan var í aðalhlutverki. Strax við opnun klukkan 12 myndaðist röð og fljótlega var þéttsetið á báðum hæðum hússins. Stemningin var hlý og jólastemmd og ljóst að margir höfðu beðið eftir þessari hefðbundnu veislu.
Hlaðborðið var afar vel upp sett og síldarsalötin stóðu þar upp úr. Sérstaklega vakti steikt marineruð síld athygli, afar bragðgóð og vel unnin. Heitreykti laxinn var einnig með þeim betri sem ég hef smakkað og jafnvægið í reyknum til fyrirmyndar, mildur en samt með karakter.
Þá kom að sjálfri kæstu skötunni. Hér var enginn flækjustig, aðeins einn styrkleiki og það reyndist vel. Skatan var virkilega góð og reif vel í, eins og hún á að gera. Meðlætið stóð fyllilega undir aðalréttinum. Hamsatólg, kartöflur, rófur og gulrætur, allt meðlætið var eldað af mikilli natni, mjúkt að innan en hélt lögun og áferð vel og var hvergi of soðið.
Að lokum var boðið upp á kaffi og heimabakaðar skandinavískar smákökur sem runnu ljúft niður eftir frábæra máltíð og settu punktinn yfir i-ið á þessari vel heppnuðu Þorláksmessuveislu.
Myndir og myndbönd eru í boði Síldarkaffi.







