Þessa vikuna, 10. – 14. október, stendur yfir árlegt bátasmíðanámskeið í Gamla Slippnum.

Síldarminjasafnið hefur skipulagt og boðið upp á slík námskeið árlega í sex ár, eða frá árinu 2016. Í ár eru þátttakendur tíu talsins, en færri komust að en vildu. Alls sóttu 21 um pláss á námskeiðinu og því ljóst að áhuginn og eftirspurnin er mikil .

Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður sinnir kennslu á námskeiðinu. Unnið er að viðgerð tveggja súðbyrtra báta, annar er tveggja brúttólesta afturbyggður bátur en hinn færeyskur árabátur. Skipta þarf um umför í byrðingi, bönd, þóftur, hnífla og borðstokka og eru viðfangsefnin þannig fjölbreytt og krefjandi.

En nýlega var handverkið við smíði súðbyrðingsa samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf .

Slippurinn er opinn gestum og gangandi alla vikuna – og eru íbúar og aðrir gestkomandi hvattir til að líta við og heilsa upp á bátasmiðina.

Mynd/Síldarminjasafn Íslands