Ég kynntist eitt sinn konu sem hafði verið misnotuð kynferðislega í æsku.

Þegar við höfðum þekkst í um það bil fjóra mánuði þá opnaði hún sig gagnvart mér og sagði mér frá upplifun sinni. Hún sagði mér hvernig þessir atburðir í æsku hafa eitrað allt hennar líf, sagði mér frá skuggunum sem stöðugt læðast að henni, minningarnar sem kvelja. Hún sagði mér hvernig hún upplifir sjálfa sig sem algjörlega einskis virði. Saurguð, eyðilögð, af mönnum sem áttu að vernda barnið, en ekki nota það á þennan hryllilega hátt. Og það voru fleiri sem brugðust barninu. Sem vissu, en ákváðu að líta undan.

Í dag, föstudaginn 8. mars verður lagið “Little One” eftir Guðmund Helgason “Munda” frumflutt á FM Trölla, í þættinum Undralandið. Guðmundur verður í símaviðtali hjá Andra Hrannari Undralandsstjóra.

Á meðan hún talaði fann ég svo illilega fyrir vanmætti mínum til þess að breyta orðnum hlut, bæta, reka skuggana á brott. Ég óskaði þess að ég hefði getað verið til staðar. Stöðvað þennan hrylling áður en hann varð að veruleika.

Eina sem ég gæti gert væri að reyna að hughreysta með einhverjum hætti. Hughreysta manneskju sem frá átta ára aldri hefur fundist hún vera einskis virði. Þú ert milljón sinnum meira virði….

Þá fór þetta lag að fæðast. Það tók ekki langan tíma að semja það. Það samdi sig eiginlega sjálft. Í textanum eru í nánast hverri línu skírskotanir til þess sem hún sagði mér.

Eitt af hverjum tíu börnum á heimsvísu er misnotað kynferðislega áður en það nær 18 ára aldri. Þetta er allsstaðar í kringum okkur. Manneskja mér mjög nákomin lenti í þessu sem barn. Þetta lag samdi ég ekki síður fyrir hana. Og fyrir öll þau börn í heiminum sem hafa verið misnotuð. Eða beitt ofbeldi með einum eða öðrum hætti.

Þess vegna gerði ég þetta lag og gef það núna út.
Veikburða tilraun mín til þess að hughreysta.

Hlustum.
Trúum.
Þögnin er óvinurinn.
Höfum hátt!

 


Fylgist með þættinum Undralandið milli kl. 13 og 16 alla virka daga á FM Trölla

 

FM Trölli næst á fm 103.7 á Tröllaskaga og 102.5 á Hvammstanga.

 

Auk þess er hægt að hlusta um allan heim á vefnum trolli.is.