Á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hornbrekku í Ólafsfirði var nýverið stofnaður ljóðaklúbbur þar sem ljóðelskt heimilisfólk kemur saman einu sinni í viku, les ljóð og fræðist um ljóðskáld landsins.

Forstöðumanni Ljóðasetursins var boðið í heimsókn og spurt hvort hann gæti verið með innlegg um skáld marsmánaðar, sem er Tómas Guðmundsson. Því var að sjálfsögðu vel tekið og greip forstöðumaður gítarinn með sér, enda verið samin mörg falleg lög við ekki síður falleg ljóð Tómasar.

Sagði forstöðumaður aðeins frá skáldinu og fjallaði sérstaklega um tvær fyrstu ljóðabækur hans og nýrómantísku-stefnuna sem Tómas tilheyrði. Síðan fór gítarinn á loft og réð söngurinn ríkjum eftir það. Var vel tekið undir í sígildum lögum eins og Játning og Dagný, sem Sigfús Halldórsson samdi við ljóð Tómasar. Eins flutti forstöðumaður eigin lög og frumflutti m.a. lag sem hann samdi á dögunum við ljóð Tómasar, Vorgleði, sem er í hans fyrstu bók, Við sundin blá.

Þetta var virkilega notaleg stund og ekki ólíklegt að önnur heimsókn á Hornbrekku verði á dagskrá fljótlega.

Tómas er annað viðfangsefni hópsins en fyrstur í röðinni var Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Guðmundur Ólafsson leikari heimsótti þá hópinn og flutti ljóð Davíðs í tali og tónum.

Myndir/Ljóðasetur Íslands