Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands á fjórða ársfjórðungi 2019, unnu alls 33,3% launamanna á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Fjarvinna heima tekur aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við.
Launamenn sem unnu aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima voru 4,1% en 29,2% launamanna unnu stundum í fjarvinnu. Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar sýna að fjarvinna er árstíðabundin, en hún er alla jafna minnst yfir sumartímann. Bráðabirgðatölur fyrir fyrsta ársfjórðung 2020 sýna nokkra aukningu á fjarvinnu launafólks af völdum COVID-19 en endanlegar niðurstöður ársfjórðungsins liggja ekki fyrir.

Þegar hlutfall launafólks í fjarvinnu er skoðað eftir kyni sést að hlutfall kvenna var nánast það sama og karla á fjórða ársfjórðungi 2019. Hlutfall karla, sem vinna að heiman, af öllu launafólki var 16,7% og hlutfall kvenna var 16,5%.

Kjörnir fulltrúar, æðstu embættismenn og stjórnendur vinna hlutfallslega oftar störf sín í fjarvinnu að heiman, en aðrar starfsstéttir. Á fjórða ársfjórðungi 2019 sögðust 57,3% þeirra vinna störf sín í fjarvinnu að heiman. Næstir komu sérfræðingar, en 53,3% þeirra sögðust vinna störf sín í fjarvinnu. Hlutfall tækna og annars sérmenntaðs starfsfólks var 38,4%. Aðrar starfsstéttir voru mun ólíklegri til að vinna störf sín í fjarvinnu eða um 10,5%.

Fleiri stundir hjá þeim sem vinna heima í fjarvinnu
Þegar vinnustundir á fjórða ársfjórðungi eru skoðaðar sést að launafólk á aldrinum 25 til 64 ára vann 40,4 klukkustundir að jafnaði í hverri viku. Þeir sem voru eitthvað í fjarvinnu að heiman unnu 42,2 klukkustundir og þeir sem aldrei eru í fjarvinnu að heiman unnu 39,5 klukkustundir. Á fjórða ársfjórðungi vann fólk í fjarvinnu að jafnaði 6,1 klukkustund heima eða 14,4% af unnum stundum. Eins og sjá má af myndinni hér að neðan þá sýna bráðabirgðatölur fyrir fyrsta ársfjórðung 2020 verulega aukningu á hlutfalli unninna stunda í fjarvinnu af heildarfjölda unnina stunda.

Mynd: Pixabay