Í síðustu viku héldu Akureyrarbær og Þríþrautarsamband Íslands þríþrautaráskorun fyrir nemendur í 7. bekk en þríþraut er sett saman af sundi, hjóli og hlaupi.

Um 80 nemendur í Giljaskóla, Glerárskóla, Lundarskóla, Naustaskóla og Síðuskóla tóku þátt í þríþrautinni. Hægt var að velja á milli einstaklingsáskorun eða liðaáskorun með þremur í liði þar sem einn nemandi synti, annar hjólaði og sá þriðji hljóp.

Ragnar Guðmundsson, verkefnastjóri ungmenna hjá Þríþrautarsambandi Íslands, stóð fyrir skipulagi á áskoruninni í samvinnu við íþróttakennara grunnskólanna og fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar en undirbúningur fyrir þetta verkefni hófst haustið 2023.

Aðstæður til þríþrautar voru mjög góðar en sundið fór fram í Glerárlaug í góðri samvinnu við starfsfólk sundlaugarinnar og hjóla- og hlaupaleið var útfærð í skemmtilegu umhverfi Glerárskóla þar sem nemendur komu í mark á Þórsvellinum. Allir þátttakendur sýndu mikinn metnað og kláruðu þrautirnar með miklum sóma með góðum stuðningi samnemenda sinna. Að keppni lokinni fengu þátttakendur afhent viðurkenningarskjal frá Þríþrautarsambandi Íslands.

Þríþrautardeild UFA, Norðurljósin, vinnur að því að setja upp ungmennaþjálfun á næsta skólaári og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér það frekar. Hér er að finna nánari upplýsingar um þríþrautardeildina

Mynd/akureyri.is