Þrjú þorrablót á þremur dögum, Þórarinn og Stulli á fullu

Þessa mynd birti Þórarinn Hannesson í júní í fyrra á Facebook, en þá höfðu þeir félagar, Tóti og Stulli, starfað sem dúett í rúm tvö ár, þvælst víða um land að spila og syngja og samtals staðið saman á sviði 200 sinnum. Mynd úr einkasafni.

Tónlistarfólk frá Siglufirði nýtur mikilla vinsælda yfir Þorratímabilið og er bókað víðs vegar um landið til að halda uppi fjörinu á þorrablótum.

Þórarinn Hannesson, sem er betur þekktur sem Tóti, segir Þorrann hafa byrjað af krafti í tónlistinni hjá þeim Stulla, en þeir komu fram á þremur þorrablótum á þremur dögum. Fyrsta blótið var haldið á Hornbrekku á Ólafsfirði á fimmtudaginn, þar sem heimilisfólk og aðstandendur fjölmenntu til góðrar stundar. Þar var mikið sungið og dansað og stemmingin sögð afar góð.

Þetta kemur fram í færslu Þórarins Hannessonar á Facebook-síðu hans, sem birt er hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Á föstudag lá leiðin í Kiðagil í Bárðardal, þar sem Tóti steig á svið í fyrsta sinn. Þar varð fjöldasöngurinn einstaklega kraftmikill að hans sögn og var spilað, sungið og dansað langt fram á nótt. Skemmtiatriði voru fjölbreytt og þátttaka gesta mikil.

Þrjú þorrablót á þremur dögum, Þórarinn og Stulli á fullu

Góð stemning ríkti á Hornbrekku á Ólafsfirði þegar fyrsta þorrablót helgarinnar var haldið á fimmtudaginn. Mynd úr einkasafni.

Þriðja þorrablótið um helgina var haldið á Tjörnesi í félagsheimilinu Sólvangi. Þar buðu heimamenn upp á heimatilbúin skemmtiatriði þar sem sveitungarnir fengu góðlátlegar sneiðar. Að sjálfsögðu spiluðu Tóti og Stulli undir, fjöldasöngur var undir þeirra stjórn líkt og venja er og dansað fram á nótt.

Alls fluttu þeir Stulli um 130 lög af þeim rúmlega 300 sem eru á efniskránni hjá þeim á þessum þremur blótum. Samtals voru þeir á sviði í um 14 klukkustundir þessa þrjá daga, auk þess sem tími fór í uppstillingu og frágang fyrir og eftir hvert gigg. Tóti segir þrátt fyrir langar vaktir alltaf gaman að vera á ferðinni, þorramaturinn hafi verið góður og fólkið einstakt. Haldið verði áfram næstu helgar og jafnvel næstu mánuði.

Með færslunni birti Tóti einnig myndband af kröftugum fjöldasöng við lagið Vel er mætt. Lagið er einkum þekkt í Þingeyjarsýslu þar sem það hefur stöðu eins konar þjóðsöngs og er sungið af mikilli innlifun. Að sögn Tóta þurfti þar engan forsöngvara, enda mátti heyra að lagið var fólki afar kært.

Tengt efni:

Þegar þorrablótsstemningin nær nýjum hæðum – Ástarpungarnir héldu uppi gleðinni um helgina