Meðfylgjandi er ný greining Samtaka iðnaðarins þar sem kemur meðal annars fram að stjórnendur fyrirtækja í pípulögnum innan Félags pípulagningameistara áætla að ráða þurfi 360 pípara á næstu fimm árum.
Stjórnendurnir segja að skortur á starfsfólki hafi heft vöxt fyrirtækja í greininni á síðustu árum. Samkvæmt könnun sem Outcome framkvæmdi í apríl til maí fyrir Samtök iðnaðarins segja 68% stjórnenda fyrirtækja í pípulögnum að erfiðleikar við að finna rétt starfsfólk hafi heft vöxt fyrirtækjanna á síðustu árum.
Mikil þörf er á innviða- og íbúðauppbyggingu hér á landi litið til næstu ára. Samtök iðnaðarins telja líklegt að þörfin fyrir pípara verði meiri en niðurstöður könnunarinnar sýna ef farið verður í það af fullum þunga að mæta uppsafnaðri viðhalds- og nýfjárfestingaþörf í innviðum hagkerfisins.
Einnig telja Samtök iðnaðarins að ljóst sé að vandræði blasa við varðandi misræmi milli færniþarfar fyrirtækja og þess hvað innlent menntakerfi nær að anna.


Mynd/pixabay